18 feb. 20161988-árgangurinn varð í nóvember síðastliðnum fyrsti árangurinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins sem nær að spila samanlagt meira en tvö hundruð landsleiki.
Þrjár stelpur úr 1988-áranginum voru með í leikjunum á móti Portúgal og Ungverjalandi í nóvember. Það voru þær Helena Sverrisdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Bryndís Guðmundsdóttir sem allar hafa spilað 36 landsleiki eða fleiri.
Samanlagt léku þær Helena, Sigrún og Bryndís sex leiki í nóvember sem þýddi að leikmenn sem eru fæddar árið 1988 hafa nú leikið til samans 201 leik fyrir íslenska kvennalandsliðið.
1988-árangur hefur einnig skilað landsliðinu flestum stigum en þetta er einn af þremur árgöngum sem hafa skorað samanlagt meira en þúsund stig fyrir íslenska kvennalandsliðið. Hinir eru konur fæddar 1976 (Birna Valgarðsdóttir er ein af þeim) og 1969 (Anna María Sveinsdóttir er ein af þeim).
Helena Sverrisdóttir sjálf er með meira en þúsund stig ein og því kemur kannski ekki mikið á óvart að 1988-árangurinn sé stigahæstur.
1988-stelpurnar eru vonandi hvergi nærri hættar að bæta við leikjum og hver veit nema að þær verði einnig fyrstar í 300 landsleikina saman.
1990-árgangurinn gæti orðið næstur í hundrað leikina en treystir þessa dagana bara á miðherjann Rögnu Margréti Brynjarsdóttur. Fái hún enga hjálp þarf hún að spila 24 landsleiki í viðbót til að koma sínum árgangi yfir hundrað leikja múrinn.
Flestir leikir hjá einstökum árgöngum:
1988 201
1976 192
1972 140
1969 117
1979 113
1981 105
1978 89
1980 80
1985 80
1990 76
Flest landsliðsstig hjá einstökum árgöngum:
1988 1557
1976 1380
1969 1065
1972 918
1979 793
1978 642
1981 509
1985 300
1987 245
1990 210
Landsleikir leikmanna sem eru fæddar árið 1988:
Helena Sverrisdóttir 59
María Ben Erlingsdóttir 43
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 38
Bryndís Guðmundsdóttir 37
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 16
Helga Einarsdóttir 8