17 feb. 2016

Íslenska landsliðið sem mætti Wales í apríl 1988. (Mynd: Svanhildur Káradóttir)
Efri röð: Sólveig Pálsdóttir, Herdís Erna Gunnarsdóttir, Sigríður Guðbjörnsdóttir, María Jóhannesdóttir og Helga Kristín Friðriksdóttir. Neðri röð: Anna Björk Bjarnadóttir, Auður Rafnsdóttir, Svanhildur Káradóttir, Vigdís Þórisdóttir og Hafdís Helgadóttir.

Íslenska kvennalandsliðið spilar sína fyrstu leiki frá upphafi í febrúarmánuði þegar íslensku stelpurnar mæta Portúgal á útivelli og Ungverjalandi í Laugardalshöllinni í undankeppni EM.

Kvennalandsliðið bætir gamla metið um heila 42 daga enda ný staða að íslenskt körfuboltalandslið sé að spila á þessum tíma ársins.

Gamla metið yfir fyrsta landsleik ársins í sögu kvennalandsliðsins var leikur liðsins á móti Wales 3. apríl 1988. Sá leikur fór fram í Keflavík, var hluti af Páskamóti KKÍ og Sigurður Hjörleifsson var þjálfari íslensku stelpnanna. 

Íslenska kvennalandsliðið hafði aldrei spilað fyrr á árinu og spilar núna sína fyrstu leiki í fyrstu þremur mánuðum ársins.

Síðan landsliðið var endurvakið sumarið 2012 hafa fyrstu leikir kvennalandsliðsins á árinu farið fram í maí (2012 og 2013), júlí (2014) og júní (2015). 

Íslensku stelpurnar voru líka að spila sína fyrstu leiki í nóvember í fyrsta hluta undankeppninnar fyrir áramót en undankeppni Evrópumótsins fer nú fram inn á miðju keppnistímabilinu í fyrsta sinn.

Fram að þessari undankeppni höfðu allir leikir íslenska kvennalandsliðsins í Evrópukeppni farið fram í ágúst (7) eða september (9). 

Eftir þessa leiki í nóvember og febrúar á íslenska kvennalandsliðið aðeins eftir að spila í tveimur mánuðum sem eru janúar og mars.

Ísland mætir Portúgal í Ilhavo í Portúgal laugardaginn 20. febrúar næstkomandi og tekur svo á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni fjórum dögum síðar.

Flestir leikir kvennalandsliðsins í einum mánuði:
Maí 36
Júní 32
Desember 25
Ágúst 19
Júlí 14
Apríl 12
September 9
Nóvember 2
Október 1