16 feb. 2016
Helena Sverrisdóttir, fyrir íslenska landsliðsins, er meðal efstu kvenna í helstu tölfræðiþáttunum í riðli íslenska kvennalandsliðsins í undankeppni EM 2017. Helena og íslensku stelpurnar eru búnar að spila tvo leiki í undankeppnini eins og hin liðin í riðlinum sem eru Slóvakía, Ungverjaland og Portúgal.
Helena er efst í stoðsendingunum, hún er í 3. sæti yfir flest skoruð stig og í 5. sæti yfir flest tekin fráköst. Helena var með 16,0 stig, 6,0 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum á móti Ungverjalandi og Slóvakíu í nóvember síðastliðnum. Helena er ekki eina íslenska stelpan meðal efstu leikmanna í fyrrnefndum tölfræðiþáttum. Pálína Gunnlaugsdóttir er í 7. sæti yfir flest stig með 12,0 í leik og síðan eru Pálína og Sandra Lind Þrástardóttir jafnar í 7. sætinu yfir flest tekin fráköst í leik.
Næstu leikir íslenska liðsins eru á móti Portúgal og Ungverjalandi en þessu tvö lið eiga einmitt tvo stigahæstu leikmennina sem eru Tijana Krivacevic frá Ungverjalandi með 23,5 stig í leik og Sofia Da Silva frá Portúgal með 18,0 stig í leik. Sofia Da Silva er einnig í öðru sæti í fráköstunum með 11,0 fráköst í leik. Hún er líka eini leikmaður riðilsins með tvennu að meðaltali.
Ísland mætir Portúgal í Ilhavo í Portúgal laugardaginn 20. febrúar næstkomandi og tekur svo á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni fjórum dögum síðar, miðvikudaginn 24. febrúar.
Íslenskar stelpur á helstu topplistum tölfræðinnar:
Flest stig í leik í riðlinum:
1. Tijana Krivacevic, Ungverjalandi 23,5
2. Sofia Da Silva, Portúgal 18,0
3. Helena Sverrisdóttir, Íslandi 16,0
4. Anna Jurcenkova, Slóvakíu 14,5
5. Marta Páleníková, Slóvakíu 13,5
6. Zsofia Fegyverneky, Ungverjalandi 12,5
7. Pálína Gunnlaugsdóttir, Íslandi 12,0
Flest fráköst í leik í riðlinum:
1. Anna Jurcenkova, Slóvakíu 14,5
2. Sofia Da Silva, Portúgal 11,0
3. Zsofia Fegyverneky, Ungverjalandi 9,0
4. Martina Kissova, Slóvakíu 6,5
5. Helena Sverrisdóttir, Íslandi 6,0
5. Tijana Krivacevic, Ungverjalandi 6,0
7. Pálína Gunnlaugsdóttir, Íslandi 5,0
7. Sandra Lind Þrastardóttir, Íslandi 5,0
7. Joana Lopes, POrtúgal 5,0
Flestar stoðsendingar í leik í riðlinum:
1. Helena Sverrisdóttir, Íslandi 7,0
2. Barbora Balintova, Slóvakíu 5,0
2. Zsofia Simon, Ungverjalandi 5,0
4. Marta Páleníková, Slóvakíu 4,0
4. Ines Viana, Portúgal 4,0
6. Zsofia Fegyverneky, Ungverjalandi 3,5