29 jan. 2016Körfuknattleikssamband Íslands fagnar í dag 55 ára afmæli sambandsins og hefur af því tilefni opnað nýjan vef á slóðinni www.kki.is. Vefurinn var unnin í nánu samstarfi við veflausnasvið Advania og markar opnun hans ákveðin tímamót, því nú eru liðin rúm 10 ár frá því fyrri vefur sambandsins var tekinn í notkun.
Fyrir utan alsherjar tiltekt á efni og innihaldi og einföldun á aðgengi má nefna meðal nýjunga að vefurinn er orðinn samhæfður símum og spjaldtölvum, hægt er að skrá sig á póstlista KKÍ og fá fréttir öðru hverju um helstu viðburði og allt viðhald er orðið þægilegra.
Vefur KKÍ er mikið sóttur og fær vikulega um 25.000 innlit. Á honum er að finna ítarlegar upplýsingar um úrslit allra leikja í öllum flokkum, sem og upplýsingar um starf sambandsins og ítarlega tölfræðigreiningu sem uppfærist í rauntíma þegar leikir fara fram.
„Samstarfið með Advania hefur gengið alveg ljómandi vel“ segir Hannes Jónsson, formaður KKÍ. „Tryggvi Geir og Hákon, starfsmenn í vefdeild Advania, hafa verið frábærir í einu og öllu en þeir unnu vefinn ásamt Rúnari Birgi og Kristni Geir frá KKÍ og við gætum ekki hafa haft betri menn til að hjálpa okkur að gera allt það sem við vildum hafa á nýjum vef“.
„Við óskum KKÍ innilega til hamingju með 55 ára afmæli sambandsins og auðvitað opnun nýja vefsins“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania. „Tækninni fleygir ört fram og notendur gera sífellt meiri kröfur til vefsíðna og virkni þeirra. Það er alltaf ánægjulegt að mæta kröfum og þörfum viðskiptavina og við erum stolt af okkar þætti í þessu verkefni.“
„Vefumsjónarkerfi Advania, LiSA, býður upp á allar þær lausnir sem þurfum fyrir nýja vefinn og það er von okkar að notendur KKÍ.is verði ánægðir með breytingarnar“ segir Kristinn Geir Pálsson, starfsmaður KKÍ og vefstjóri. „Innihald vefsins fékk algjöra yfirhalningu og nú státum við loks af vef sem er samhæfður við farsíma og spjaldtölvur, sem er alveg frábært“.
Það voru Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Ægir Már Þórisson forstjóri Advania sem opnuðu vefinn og vígðu formlega í höfuðstöðvum Advania.