18 nóv. 2015Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, hefur sett traust sitt á tvo leikmenn í öllum tólf byrjunarliðunum sínum frá því að hann tók aftur við landsliðinu árið 2014. Framundan eru tveir leikir hjá kvennalandsliðinu. Íslensku stelpurnar mæta Ungverjalandi á útivelli og Slóvakíu á heimavelli í fyrstu tveimur leikjum liðsins í undankeppni EM 2016. Helena Sverrisdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir hafa byrjað inná í öllum tólf leikjum liðsins árin 2014 og 2015. Hildur Björg Kjartansdóttir var líka í hóp með þeim en komst ekki í æfingaferðina til Danmerkur í júlí eftir að hafa byrjað níu leiki í röð hjá Ívari. Hildur Sigurðardóttir var í byrjunarliðinu í öllum sex leikjum liðsins árið 2014 en lagði skóna á hilluna síðasta vor. Fyrrum liðsfélagi Hildar hjá Snæfelli, Gunnhildur Gunnarsdóttir, komst fyrst í byrjunarliðið í ár og hefur byrjað alla leiki ársins. Ívar var með sama byrjunarlið í öllum sex leikjum ársins 2014 en það hafa níu leikmenn skipt með sér byrjunarliðssætunum á árinu 2015. Helena hefur nú verið í byrjunarliðinu í öllum landsleikjum frá því maí 2005 eða í 46 landsleikjum í röð. Bryndís var aftur á móti aðeins búin að vera í byrjunarliðinu í 5 af 23 fyrstu landsleikjum sínum þegar Ívar gerði hana að fastakonu í byrjunarliðinu sínu frá fyrsta landsleik liðsins árið 2014. Íslenska kvennalandsliðið mætir Ungverjum í Miskolc laugardaginn 21. nóvember og fjórum dögum síðar er síðan leikur á móti Slóvakíu í Laugardalshöllinni. Flestir leikir í byrjunarliði síðan að Ívar Ásgrímssonar tók aftur við 2014: Helena Sverrisdóttir · 12 Bryndís Guðmundsdóttir · 12 Hildur Björg Kjartansdóttir · 9 Pálína Gunnlaugsdóttir · 7 Hildur Sigurðardóttir · 6 Gunnhildur Gunnarsdóttir · 6 Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 3 Sara Rún Hinriksdóttir · 2 Margrét Rósa Hálfdanardóttir · 2 Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 1