17 ágú. 2015Strákarnir í U16 ára landsliðinu töpuðu síðasta leiknum gegn Rúmeníu 79-72 eftir að jafnt hefði verið í hálfleik 34-34. Hákon Örn Hjálmarsson var stigahæstur með 16 og fyrirliðinn Gabríel Sindri Möller næstur með 15. Strákarnir hófu leikinn í svæðisvörn og pressuðu gegn hávöxnu liði Rúmena, en liði hefur leikið 80% leikina í maður á mann með miklum ágætum. Íslenska liðið þvingaði Rúmenana í marga tapaða bolta en þeir unnu þá upp með sóknarfráköstum á lykil augnablikum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13-13. Hittni strákanna var döpur miðað við leikina á undan og klárt mál að Rúmenarnir voru líkamlega sterkari. Íslenska liðið náðu 6 stiga forystu 31-25 en vítaskot og galopin skot vildu ekki niður og það nýttu Rúmenarnir sér og jöfnuðu á ný 34-34 í hálfleik. Strax í upphafi síðari hálfleiks náðu Rúmenar yfirhöndinni og komist mest í 11 stiga forystu í þriðja leikhluta. Íslenska liðið var því að elta og voru undir 9 stig 57-48 eftir þrjá leikhluta. Rúmenar hittu vel fyrir utan og voru farnir að brjóta svæðispressu Íslensku strákanna vel niður. Liðið skipti yfir í maður á mann en það virkaði ekki nægjanlega vel. Rúmenar juku forystuna mest í 17 stig um miðjan fjórða leikhluta. Frábær barátta liðsins kom muninum niður í 7 stig en nær komust þeir ekki og lokatölur 79-72. Íslensku strákarnir enduðu því númer 18 af 24 með fjóra sigurleiki og fimm tapleiki. Ferðin gekk vel í alla staði og góð samstaða var í hópnum