9 jún. 2015Logi Gunnarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, bætti íslenska metið yfir flestar þriggja stiga körfur á Smáþjóðaleikum á leikunum sem fóru fram á Íslandi í fyrstu viku júnímánaðar. Logi skoraði alls níu þriggja stiga körfur í þremur leikjum Íslands í Laugardalshöllinni og er þar með kominn með 52 þrista á Smáþjóðaleikunum. Logi bætti þar með met Magnúsar Þórs Gunnarssonar sem hafði sjálfur náð metinu af Herberti Arnarsyni á leikunum í Lúxemborg fyrir tveimur árum síðan. Magnús Þór skoraði 50 þriggja stiga körfur í 23 leikjum sínum á Smáþjóðaleikum en Herbert Arnarson var með 44 þrista í 18 leikjum sínum. Logi náði metinu með því að skora þrjár þriggja stiga körfur í lokaleiknum á móti Svartfjallalandi. Hann jafnaði metið og sló það með þristum sem komu með aðeins 38 sekúndna millibili í fyrri hálfleiknum. Magnús skoraði þriggja stiga körfur sínar á fimm leikum frá 2003 til 2013, flestar á leikunum í Andorra árið 2005. Magnús var þá með 18 þriggja stiga körfur í fjórum leikjum eða 4,5 að meðaltali í leik. Herbert skoraði sína 44 þrista á fjórum Smáþjóðaleikum frá 1993 til 2001 en hann setti niður 20 þrista á leikunum í San Marínó 2001 og 19 þrista á leikunum á Íslandi árið 1997. Logi Gunnarsson hefur skorað 52 þriggja stiga körfur í 23 leikjum sem gera 2,3 þrista að meðaltali í leik. Hann hefur skorað að minnsta kosti eina þriggja stiga körfu í 21 af 23 leikjum sínum á Smáþjóðaleikum. Logi hefur skorað tvær þrista eða fleiri í 16 af 23 leikjum sínum en mest hefur hann skorað fimm þriggja stiga körfur í einum leik á Smáþjóðaleikum en það var í leik á móti San Marínó á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2001. Lokaleikurinn á móti Svartfellingum var ennfremur tíundi leikur Loga Gunnarssonar á Smáþjóðaleikum þar sem hann skorar þrjár eða fleiri þriggja stiga körfur. Þar er hann að sjálfsögðu á toppnum. Flestar þriggja stiga körfur fyrir karlalandsliðið á Smáþjóðaleikum: Logi Gunnarsson 52 (23 leikir) Magnús Þór Gunnarsson 50 (23) Herbert Arnarson 44 (18) Teitur Örlygsson 38 (20) Páll Axel Vilbergsson 36 (19) Valur Ingimundarson 36 (19) Guðjón Skúlason 34 (20) Falur Harðarson 21 (14) Brynjar Þór Björnsson 19 (12) Helgi Már Magnússon 14 (17) Ægir Þór Steinarsson 13 (7) Brenton Birmingham 12 (5) Jón Kr. Gíslason 10 (19) Flestir leikir með einn þrist eða fleiri fyrir karlalandsliðið á Smáþjóðaleikum: Logi Gunnarsson 21 Magnús Þór Gunnarsson 18 Valur Ingimundarson 16 Páll Axel Vilbergsson 16 Teitur Örlygsson 15 Herbert Arnarson 13 Guðjón Skúlason 13 Falur Harðarson 10 Helgi Már Magnússon 10 Flestir leikir með tvo þrista eða fleiri fyrir karlalandsliðið á Smáþjóðaleikum: Logi Gunnarsson 16 Magnús Þór Gunnarsson 13 Páll Axel Vilbergsson 11 Valur Ingimundarson 11 Guðjón Skúlason 11 Flestir leikir með þrjá þrista eða fleiri fyrir karlalandsliðið á Smáþjóðaleikum: Logi Gunnarsson 10 Magnús Þór Gunnarsson 8 Teitur Örlygsson 7 Guðjón Skúlason 7 Herbert Arnarson 6