7 des. 2014
Í dag, mánudaginn 8. desember, er komið að sögulegri stund í sögu íslensks körfubolta en þá verður dregið í riðla fyrir lokamót EM í körfubolta karla, EuroBasket 2015. Drátturinn fer fram í Disneylandi í París og hefst kl. 16:00 og verður hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, Craig Pedersen landsliðsþjálfari og Kristinn Geir Pálsson, íþróttafulltrúi KKÍ, verða viðstaddir dráttinn í París fyrir hönd KKÍ.  Keppnin fer fram dagana 5.-20. september á næsta ári í fjórum löndum, Frakklandi, Króatíu, Lettlandi og Þýskalandi. Liðum er raðað upp í styrkleikaflokka eftir árangri þeirra í undankeppninni og síðasta lokamóti EM 2013. Ísland verður í 6. styrkleikaflokki og getur því ekki lent í riðli með Hollandi, Rússland eða Eistlandi sem eru í sama styrkleikaflokki þar sem aðeins eitt lið úr hverjum flokki fer í hvern riðil. Það eina sem er því ljóst fyrirfram, fyrir utan að leika ekki gegn þessum liðum er að Ísland mun ekki leika í Lettlandi. Gestgjafarnir fjórir hafa valið sér eina þjóð í sinn riðil og því eru fjögur sæti laus í hverjum þeirra. Þar sem Lettar völdu nágranna sína frá Eistlandi með sér í riðil er ljóst að Ísland og íslenskir stuðningsmenn liðsins eru á leið til einhverra hinna þriggja landana. Löndin sem leika saman í riðlum áður en dregið er eru: (styrkleikaflokkur innan sviga) -Frakkland (1) og Finnland (2) -Þýskaland (5) og Tyrkland (4) -Króatía (1) og Slóvenía (2) -Lettland (3) og Eistland (6) Eftirfarandi listi sýnir styrkleikaflokkana sex og röð liða: 1. Frakkland Litháen Spánn Króatía 2. Slóvenía Úkraína Serbía Finnland 3. Grikkland Tyrkland Lettland Bosnía 4. Pólland Belgía Makedónía Ítalía 5. Þýskaland Ísrael Tékkland Georgía 6. Holland Rússland Ísland Eistland