20 ágú. 2014Íslenska körfuboltalandsliðið mætir Englendingum í Koparkassanum í London í kvöld í þriðja leik sínum í undankeppni Evrópumótsins og getur tryggt sér annað sætið í riðlinum með sigri í leiknum. Sá sigur gæti einnig skilað íslenska liðinu inn á EM á næsta ári. Íslenska landsliðið mun þarna spila sinn fyrsta Evrópuleik á Englandi síðan í aprílmánuði 1977 þegar íslensku strákarnir tóku þátt í C-riðli Evrópukeppninnar í Hempsted undir stjórn þeirra Einars Bollasonar og Birgis Örn Birgis. Fyrsti leikur Íslands var einmitt á móti heimamönnum í enska landsliðinu og tapaðist hann með 8 stigum, 85-93. Þetta var samt stórmerkilegur leikur því Pétur Guðmundsson lék þarna sinn fyrsta A-landsleik og stimplaði sig inn með því að skora 34 stig í sínum fyrsta leik. Það er ólíklegt að það nýliðamet falli einhvern tímann. Pétur var þarna aðeins 18 ára gamall en orðinn 2,17 metrar á hæð. Hann skoraði alls 106 stig í fimm leikjum Íslands á mótinu eða 21,2 stig í leik. Ísland hefur mætt Englendingum nokkrum sinnum í æfingaleikjum frá þessum leikjum í Hempstead en engir þeirra leikja hafa verið í keppni á vegum FIBA. Það eru því liðin 37 ár frá síðasta Evrópuleik á Englandi. Sigurður Þorvaldsson er elsti leikmaður íslenska landsliðshópsins en hann fæddist þó ekki fyrr en í nóvember 1980 eða rúmum þremur árum eftir umrædda leiki í Hempsted. Enginn íslensku strákanna var því fæddur þegar Ísland spilaði síðast Evrópuleik á Englandi Tveir pabbar landsliðsmanna Íslands í dag voru með í þessum síðustu Evrópuleikjum Íslands á Englandi. Gunnar Þorvarðarson, faðir Loga Gunnarssonar og svo Kári Marisson, faðir Axel Kárasonar. Þeir Gunnar og Kári voru á þessum tíma liðsfélagar í Njarðvík.