10 ágú. 2014Íslendingar hafa ekki mætt Bretum í körfubolta í rúm 38 ár en síðasti leikur Íslands og Englands endaði með ósköpum þegar hann var flautaður af þegar 24 sekúndur voru eftir. Ísland og Bretland mætast í Laugardalshöllinni í kvöld í fyrsta leik liðanna í undankeppni EM 2015. Leikurinn hefst klukkan 19.00. Síðasti leikur Íslands og Bretlands var í Laugardalshöllinni 8. febrúar 1976 og unnu Bretar þá sjö stiga sigur, 74-81, eftir að hafa unnið með 6 stiga mun á sama stað kvöldið áður. Það er sterk tenging á milli þessara leikja þá og í ár því Gunnar Þorvarðarson, faðir Loga Gunnarssonar, núverandi leikmanns íslenska liðsins, var stigahæstur í fyrri leiknum. Ísland mætti hinsvegar Englandi síðast í þremur vináttulandsleikjum í desember 1994 en sá síðasti endaði aldrei eftir mikinn slagsmálaleik. Ísland og England höfðu bæði fagnað sigri í fyrstu tveimur leikjunum, Ísland vann fyrsta leikinn í Keflavík en Bretar unnu annan leikinn í Smáranum daginn eftir. Þriðji leikurinn fór síðan fram í Hveragerði 29. desember 1994. Ísland var komið yfir á lokakaflanum og þegar 24 sekúndur voru eftir var brotið á Herberti Arnarsyni og fékk hann tvö skot. Herbert skoraði úr fyrra vítinu og kom íslenska liðinu í 105-101 en Herbert fékk aldrei tækifæri til að taka síðara vítið. Aðstoðarmaður Lazlo Nemeth, þjálfara enska liðsins, var þá rekinn út úr húsi fyrir að mótmæla því að hafa ekki fengið leikhlé fyrir vítið og í framhaldi af því var Nemeth rekinn út úr húsi fyrir að bregðast harkalega við þeirri ákvörðun. Í framhaldinu gekk allt enska liðið af velli og leikurinn var flautaður af. Síðasti leikur Íslands við Bretland 74-81 tap í æfingaleik 8. febrúar 1976 Síðasti leikur Íslands við England 105-101 sigur í æfingaleik 29. desember 1994 - Íslandi dæmdur 20-0 sigur Síðasti leikur Íslands við Skotland 111-69 sigur í undankeppni EM 28. maí 1995 Síðasti leikur Íslands við Wales 92-48 sigur í Promotion Cup 14. desember 1990