22 júl. 2014Í kvöld léku Íslendingar fyrri leik sinn af tveimur í milliriðli á EM í Rúmeníu. Leikið var gegn Bosníu en lið þeirra er afar hávaxið og því ljóst fyrir leikinn að íslenska liðið þyrfti að frákasta betur en hingað til í keppninni. Það tókst en að þessu sinni voru það tapaðir boltar sem að réðu baggamuninn. Eftir nokkuð jafnan leik höfðu Bosníustúlkur sigur 76-65. Íslensku stelpurnar byrjuðu 1. leikhluta af miklum krafti og komust í 10-6 um hann miðjan en þá hófu Bosníustúlkur að leika stífari vörn á okkar stúlkur og uppskáru margar auðveldar körfur. Slæmur kafli hjá Íslendingum varð til þess að Bosníustúlkur náðu 19-0 kafla og höfðu yfir að loknum 1. leikhluta 25-10. Í 2. leikhluta ákvað íslenska liðið að skipta um vörn og spila svæðisvörn, það virtist virka mun betur og leikurinn jafnaðist. Bosnía hafði þó enn örugga forystu 43-31 þegar flautað var til hálfleiks. Í 3. leikhluta héldu íslensku stelpurnar áfram að spila góða svæðisvörn og náðu að halda hávöxnu liði Bosníu í skefjum. Íslenska liðið náði að minnka muninn niður í 5 stig en Bosnía náði að slíta sig frá Íslendingum fyrir lokaleikhlutann. Staðan að loknum 3. leikhluta var 58-49. Í lokaleikhlutanum hélt sama barátta áfram. Íslenska liðið spilaði áfram svæðisvörn og var einnig að spila ágætan sóknarleik. Munurinn á liðunum var þó alltaf 5-8 stig og innsigluðu Bosníustúlkur sér sigurinn með þriggja stiga flautukörfu 76-65, sem gefur kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum því hann var jafn og spennandi. Í þessum leik var allt annað sjá til íslenska liðsins en gegn Dönum. Frákastabarátta og varnarleikur voru mun betri og það gott veganesti fyrir framhaldið. Á morgun leikur íslenska liðið sinn fimmta leik á jafnmörgum dögum. Að þessu sinni verður leikið gegn heimaliðinu frá Rúmeníu en eins og í flest öðrum leikjum íslenska liðsins verður við ramman reip að draga. Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Maður leiksins að þessu sinni var Guðlaug Björt Júlíusdóttir sem átti algjöran stórleik. Stigaskor: Guðlaug Björt 24 stig (5 fráköst, 5 stoðsendingar og 8 fiskaðar villur) Sara Rún 15 stig (10 fráköst, 6 stolna bolta) Elsa Rún 10 stig (4 fráköst, 3 varin skot) Sandra Lind 7 stig (7 fráköst, 2 stoðsendingar og 6 stolnir boltar) Sólrún Inga 4 stig (6 fráköst, 3 stoðsendingar) Margrét Ósk 3 stig Bríet Sif 2 stig