10 júl. 2014Íslenska kvennalandsliðið mætir Dönum í æfingaleik í Stykkishólmi klukkan 19.15 í kvöld. Þetta er fyrsti kvennalandsleikurinn í Hólminum en strákarnir eiga góðar minningar frá spilamennsku sinni í húsinu. Íslenska karlalandsliðið hefur spilað þrjá landsleiki í Stykkishólmi. Fyrsti leikurinn fór reyndar fram fyrir að verða 24 árum og tapaðist á móti Dönum en liðið hefur unnið tvo þá síðustu. Íslenska karlalandsliðið spilaði tvo af sex vináttuleikjum sínum sumarið 2004 í Stykkishólmi en mótherjarnir voru Belgía og Pólland. Hólmurinn var augljóslega mikill happastaður fyrir strákana því liðið vann báða leikina sína í Stykkishólmi en tapaði aftur á móti hinum fjórum. Íslenska liðið vann 77-76 sigur á Belgum 26. júní 2004 og 90-82 sigur á Pólverjum 7. ágúst 2004 en síðan er liðinn rétt tæpur áratugur frá landsleik í Hólminum. Hlynur Bæringsson skoraði 23 stig í báðum leikjunum í Hólminum en hann hefur hvorki fyrr né síðar skorað meira í einum landsleik. Fyrir tíu árum áttu Hólmarar tvo leikmenn í karlalandsliðinu, þá Hlyn Bæringsson og Sigurð Þorvaldsson og sömu sögu er að segja af kvennalandsliðinu í dag. Það var hinsvegar enginn Hólmari í liðinu sem tapaði árið 1990. Með íslenska kvennalandsliðinu í dag spila þær Hildur Sigurðardóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir sem urðu Íslandsmeistarar með Snæfellsliðinu í vor. Þriðji Hólmarinn í liðinu er Gunnhildur Gunnarsdóttir sem spilaði með Haukum í vetur en mun spila heima með Snæfelli á næsta tímabili. Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska liðsins, er líka einn af "Hólmurunum" í hópnum því hann þjálfaði karlalið Snæfells veturinn 1992-93. Landsleikir körfuboltalandsliða Íslands í Stykkishólmi Karlalandsliðið 27. desember 1990: 80-90 tap fyrir Danmörku 26. júní 2004: 77-76 sigur á Belgíu 7. ágúst 2004: 90-82 sigur á Póllandi Kvennalandsliðið Sá fyrsti er í kvöld