16 ágú. 2012Íslensku drengirnir í U18 ára liðinu í körfuknattleik töpuðu nú fyrr í kvöld gegn Portúgal í hreint út sagt mögnuðum spennuleik á Evrópumótinu í Sarajevo. Eftir framlengdan leik þá voru það Portúgalska liðið sem tryggði sér 2ja stiga sigur í blálokin. Sárt tap því staðreynd en íslenska liðið var mikið mun ferskara í dag heldur en í gær gegn Hollandi. Fyrsti leikhlutinn var hreint afbragð hjá íslensku drengjunum og greinilegt að menn voru klárir í slaginn. Eftir fína rispu komust okkar menn 11 stigum yfir en lið Portúgals er baráttuglatt og kom sér inn í leikinn aftur með fínum leik. Eftir leikhlutann var staðan þó 14-20 fyrir okkar mönnum og ljómandi góður bragur á liðinu. Annar leikhluti varð svo okkur erfiður enda fóru leikmenn Portúgals að hitta ansi vel fyrir utan 3ja stiga línuna. Vandræðagangur var á íslenska liðinu á köflum og það nýttu leikmenn Portúgals sér til hins ítrasta og komust 5 stigum yfir. Baráttan var þó til staðar hjá okkar mönnum og eftir fallega flautukörfu frá Matthíasi Orra þá var munurinn ekki nema eitt stig þegar hálfleiksflautan gall 39-40. Þriðji leikhlutinn einkenndist af mikilli baráttu en okkar lið var að ströggla nokkuð sóknarmegin. Góð skot voru ekki að detta en menn héldu sér inní leiknum á fínum varnarleik. Þegar að leikhlutanum lauk þá leiddu Portúgalar með 6 stiga mun 57-51 og leikurinn galopinn. Fjórði leikhlutinn var furðulegur en jafnframt æsispennandi og skemmtilegur. Portúgal náði sínu mesta forskoti og leiddu með 8 stigum en með frábærum endasprett jafna okkar menn leikinn undir blálokin með frábærri 3ja stiga körfu frá Matthíasi Orra rétt þegar lokaflautan gall! Mikill barningur var á lokakaflanum og spennan mikil í húsinu. Í framlengingunni fengu okkar menn öll færi á því að slíta sig frá Portúgalska liðinu en nýttu þau tækifæri ekki því miður. Þegar 26 sekúndur eru eftir af leiknum og staðan jöfn 75-75 þá eru Portúgalar með knöttinn, okkar menn spila flotta vörn og Portúgal missir knöttinn er 9 sekúndur eru eftir. Tekið er leikhlé og íslenska liðið tekur skot þegar rétt um 3 sekúndur eru eftir en hitta ekki. Portúgal fær innkast undir eigin körfu og 1.6 sekúndur eftir þegar þeir henda langri sendingu fram yfir alla íslensku leikmennina og fá lay-up fyrir leiknum! Sorglegur endir en það verður að taka það jákvæða út úr þessu öllu saman sem var baráttan og viljinn. Liðið gerði mistök á lokakaflanum EN menn setja það í reynslubankann sem er ómetanlegt fyrir þessa drengi. Eftir leik voru menn niðurlútir en jafnframt staðráðnir í að klára síðustu 2 leikina með stæl, halda áfram á sömu braut enda margt jákvætt í leiknum í kvöld. Matthías Orri átti aftur stórleik fyrir íslenska liðið og setti 20 stig auk þess að nýta skotin sín einstaklega vel. Valur Orri átti flottar rispur og setti niður góðar körfur á þeim kafla sem íslenska liðið jafnar leikinn í 4.leikhluta. Hann var með 15 stig og 8 fráköst í þessum leik. Stefán Torfason var öflugur undir körfunni með 13 stig og 12 fráköst . [v+]http://u18men.fibaeurope.com/enDivB/cid_vxfp6gWIJ5oSOkc7ox4BA3.gameID_8905-H-4-2.compID_8aYeHlfuGF-mF5IqO8aFH1.season_2012.roundID_8806.teamID_.html[v-]Tölfræði leiksins[slod-] Á morgun er frídagur hjá strákunum en á laugardag mæta þeir Slóvökum í krosspili og sigurvegarinn spilar um 13.-14. sætið við sigurvegarann úr viðureign Svía og Rúmena. Tapliðin mætast um 15.-16. sætið, en allir leikir um sæti fara fram á sunnudag.