30 ágú. 2010Nú þegar HM er nýfarið af stað hefur keppni í Evrópudeildinni einnig staðið sem hæst og er ný lokið keppni í A-deild. Það er því ljóst hvaða 15 lið af 16 sem taka þátt munu fara á EM í Litháen næsta haust. Tíu þjóðir eru búnar að tryggja sér sæti í lokakeppninni en það eru þær þjóðir sem taka þátt á HM um þessar mundir. Spánn, Serbía, Grikkland, Slóvenía, Frakkland, Króatía, Þýskaland, Litháen, Rússland og Tyrkland fara beint á EM. Íslandsvinirnir í liði Svartfjallalands sem léku gegn okkar mönnum í B-deild fyrir tveim árum náðu takmarki sínu og sigruðu sinn riðil og eru komnir áfram ásamt Bretum og Belgum sem urðu í fyrstu sætum sinna riðla. Tvö af þeim þrem liðum sem urðu í öðru sæti áttu möguleika á síðustu sætunum að þessu sinni og það urðu Makedónía og Ísrael sem fara áfram á EM en Georgíumenn sitja eftir með sárt ennið með slakasta árangur liða í öðru sæti og þurfa að fara í umspil. Þar leika þær tíu þjóðir sem kepptu núna og komust ekki áfram núna um síðasta sætið í keppninni. Frakkar komust á EM síðasta sumar í Póllandi með þessum hætti og stóðu sig frábærlega á lokakeppninni þannig að ekki er öll von úti fyrir Georgíumenn sem svekkja sig sjálfsagt enn yfir sigurkörfunni sem Jakob Örn skoraði gegn þeim í Laugardalshöll en það má segja að þá fyrst hafi ófarir þeirra hafist, meðal annars varð það til þess að þeir komust ekki áfram það árið í A-deild.