5 jan. 2010Samtök íþróttafréttamanna tilkynntu nýverið um val þeirra á þeim íþróttamönnum sem skipa 10 efstu sætin í vali á Íþróttamanni ársins 2009 og í kvöld er komið að því að það verði kunngjört hver hlýtur titilinn. Sex karlar og fjórar konur eru í þessum sætum en tilkynnt verður um kjörið á Grand Hótel Reykjavík í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. Körfuknattleiksleikmenn ársins hjá KKÍ eru bæði á topp 10 listanaum en það eru þau Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir. Jón Arnór Stefánsson · CB Granada á Spáni Jón Arnór lék með KR á síðasta tímabili. Hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar á lokahófi KKÍ fyrir frammistöðu sína með KR sem Íslandsmeistari og Powerademeistari ásamt því að liðið lék til úrslita í Subwaybikarnum. Eftir tímabilið lék Jón með ítalska liðinu Benetton Treviso í úrslitakeppninni og stóð sig mjög vel. Í haust samdi Jón svo við spænska liðið CB Granada og er að ná fyrra formi eftir að hafa meiðst illa í upphafi tímabilsins. Helena Sverrisdóttir · TCU-háskólanum í Bandaríkjunum Helena hefur staðið sig frábærlega í bandaríska háskólaboltanum en á síðasta tímabili komst TCU í úrslitakeppnina sem er frábær árangur þar í landi og átti Helena drjúgan þátt í því afreki. Í Evrópukeppni landsliða lék íslenska liðið í B-deildinni og þar fór Helena á kostum með íslenska landsliðinu og var á meðal efstu kvenna í nær öllum tölfræðiflokkum.