25 júl. 2009Íslensku strákarnir sýndu sjálfum sér hversu magnaðir þeir geta verið þegar þeir lögðu sterkt lið Slóvaka 80-57 í leik þar sem allir leikmenn lögðu sitt á vogaskálarnar. Stigahæstur var Tómas Heiðar Tómasson með 18 stig. Fyrir leikinn höfðu strákarnir tapað gegn Póllandi 67-65 og Finnlandi 67-55. Þeir voru staðráðnir að sækja sigur í dag og mætti liðið í heild gríðarlega vel stemmt sem skilaði sér í frábærum leik. Haukur Helgi Pálsson skoraði fyrstu átta stig leiksins og setti tóninn fyrir aðra leikmenn. Íslensku strákarnir leiddu frá byrjun en Slóvakar héldu sér inní leiknum með góðri hittni utan af velli. Ragnar Ágúst Nathanaelsson mætti gallvaskur á sviðið og var fljótur að stimpla sig inn, reif niður tvö fráköst og skoraði góða körfu. Staðan eftir fyrsta leikhluta 22-19 Íslensku strákunum í vil. Í öðrum leikhluta hélt barátta strákanna áfram og batt Trausti Eiríksson vörnina saman eins og sannur skáti. Þorgrímur Guðni Björnsson kom líkt og Ragnar gríðarlega sterkur inn af bekknum og aðstoðaði Trausta í hjálparvörninni. Staðan þegar fimm mínútur voru til hálfleiks var 31-28 íslensku strákunum í vil. Ingi Þór þjálfari skipti mikið inná og voru ávallt ferskar fætur inná vellinum sem börðust gríðarlega. Lokakafli fyrri hálfleiks góður og negldi Daði Berg niður þrist í blálok annars leikhluta og staðan 40-32. Í síðari hálfleik var vörn Íslands frábær, Slóvakar skoruðu 11 stig á meðan að Haukur Óskars og Arnþór Freyr Guðmunds röðuðu niður þriggja stiga körfunum og staðan 63-43 eftir þriðja leikhluta. Leikmenn voru staðráðnir að sækja sigurinn og stýrðu Ægir Þór Steinars fyrirliði og Daði Berg Grétars leik liðsins þegar að Slóvakar reyndu að pressa og gera allt til að sigra. Það var alveg sama hvað þeir reyndu íslensku strákarnir höfðu svar við því og lokatölur 80-57. Magnað var að sjá breytinguna á liðinu en það var líkt og veðrið, í gær var 41°C hiti en eftir fjögur í dag dró ský fyrir sólu og fór þá hitinn lækkandi sem er okkur meira í hag. Leikið var í íþróttahúsinu Slavija og kunnu strákarnir gríðarlega vel við sig í þessu rótgróna húsi. Sigurinn var algjörlega heildarinnar og nú er leikurinn á morgun gegn Svíum úrslitaleikur um að eiga möguleika á að komast uppúr riðlinum. Staðan í riðlinum er galopin, en öll fimm liðin hafa möguleika á að komast uppúr riðlinum eins og staðan er í dag. Íslensku strákarnir þurfa samt sem áður að einbeita sér að verkefni morgundagsins en liðið tapaði fyrir Svíum á norðurlandamótinu. Stigaskor leikmanna: Tómas Heiðar Tómasson með 18 stig, Haukur Helgi Pálsson 13 stig og 10 fráköst, Haukur Óskarsson 12, Ægir Þór Steinarsson 10, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 6, Daði Berg Grétarsson og Þorgrímur Guðni Björnsson 5, Ragnar Nathanelsson 4 stig og 7 fráköst, Sigurður Þórarinsson 4 og Trausti Eiríksson 3 stig og 10 fráköst. Björn Ingvi Tyler Björnsson og Arnar Pétursson léku vel en náðu ekki að skora. Leikurinn á morgun gegn Svíum er klukkan 12:00 að íslenskum tíma [v+]http://www.fibaeurope-u18men.com/enDivB/default.asp?cid={E7BA731A-A812-4C5C-9C62-E987CBB10B2B}&pageID={BDA2D1DE-CE6D-4246-8315-19ABFD70CBBC}&compID={2248A846-FA78-40FF-B03C-54B460890F45}&season=2009&roundID=6848&teamID=&gameID=6848-B-6-3&[v-]Tölfræði leiksins[slod-] Allir eru ferskir og biðja að heilsa heim. Kveðja frá Sarajevo