10 jún. 2009Það er óhætt að segja að úrslitaleikur U-15 ára landsliðs drengja hafi verið spennandi og dramatískur sl. sunnudag. Eftir fjóra sigra í riðlinum var ljóst að liðið myndi leika til úrslita gegn pólska liðinu WKK Wroclaw. WKK vann þetta mót fyrir ári síðan í keppni U-14 ára landsliða og voru staðráðnir í að leika sama leikinn nú. Dómarar á mótinu voru nokkuð harðir við að dæma skref og fengu íslensku strákarnir að kynnast því í fyrstu leikjunum. Drengirnir voru hins vegar býsna snöggir að aðlagast og fór skrefadómum fækkandi eftir því sem á mótið leið. Úrslitaleikurinn - Gangur mála: Það tók íslenska liðið nokkrar mínútur að átta sig á hlutunum og eftir að WKK komst í 0-6 kom fyrsta karfa okkar. Í stöðunni 5-9 pólska liðinu í vil tók leikurinn á sig skrautlega mynd svo ekki sé nú meira sagt. Pólski þjálfarinn var ekki ánægður með dómara leiksins og mótmælti kröftuglega m.a. nokkrum skrefum á sína leikmenn. Fljótlega gaf hann í skyn með litríku látbragði á hliðarlínunni að ef dómararnir myndu dæma einn svona dóm enn þá tæki hann sína leikmenn af velli. Við næsta dóm ( villa dæmd á einn leikmanna hans ) þá sprakk þjálfarinn og lét öllum illum látum. Hann las meðal annars starfsmönnum á ritaraborðinu pistilinn og hótaði þeim að ef ekki yrði skipt um dómara þá færi hann með liðið sitt af velli. Ritaraborðið og dómarar leiksins voru ekki á því að fara að óskum þjálfarans og eina sem hann uppskar var tæknivilla. Við það strunsaði vinurinn á bekkinn og skipaði leikmönnum að taka dótið sitt og yfirgefa völlinn. Við reyndum að tala um um fyrir honum og báðum hann um að gera drengjum beggja liða þetta ekki. Einn af aðstoðamönnum pólska liðsins tók undir með okkur en þjálfarinn lét ekki segjast heldur rauk á dyr með allt sitt lið. Upp var komin undarleg staða. Ef leikurinn hefði ekki spilast þá hefði Ísland verið úrskurðað sigurvegari á mótinu. Það varð uppi fótur og fit og allskyns pælingar. Ekkert bólaði á pólska liðinu og smátt og smátt var það að renna upp fyrir drengjunum að þeir væru sigurvegarar mótsins. Eftir 5-10 mínútur byrjuðu leikmenn WKK að birtast einn af öðrum inn aftur og gerðu sig líklega til að hefja leik aftur. Mótshaldarar kölluðu þjálfara og fararstjóra íslenska liðsins á fund þar sem rætt var mikilvægi þess að úrslitaleikur á þessu annars frábæra móti yrði að fara fram, það væri ekki hægt að enda það með þessum hætti. Krafa pólska þjálfarans var að ljúka leiknum með einum nýjum dómara. Það var hins vegar ekki tekið í mál enda algerlega óásættanlegt að leyfa honum að komast upp með að vanvirða íþróttina með þessarri hegðun og verðlauna hann svo með því að leyfa honum að ráða framhaldinu. Á endanum var svo ákveðið að leiknum yrði haldið áfram með sömu dómurum. Leikurinn hófst að nýju með því að Ísland átti fjögur víti og boltann en það kom til þar sem brotið hafði verið á leikmanni okkar þegar leikurinn stöðvaðist og svo var dæmd tæknivilla á bekkinn. Leikurinn átti svo heldur betur eftir að standa undir því að vera alvöru úrslitaleikur. WKK var alltaf skrefinu á undan og náðu mest 11 stiga forystu 19:30 þegar um 2 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Í hálfleik var staðan 23:30 Seinni hálfleikur var mikil skemmtun og leikmenn beggja liða að leika vel. Íslensku strákarnir náðu smátt og smátt að komast inn í leikinn og eftir 5 mínútna leik í seinni hálfleik var staðan 35-34 Íslandi í vil. Liðin skiptust svo á hafa forystuna þar til íslenska liðið náði frábærum kafla með því að ná 11-2 kafla og munurinn orðinn 9 stig, 46-37. Í fjórða leikhluta náði WKK að koma til baka og á síðustu mínútu leiksins skiptust liðin í þrígang að vera einu stigi yfir og þegar 15 sekúndur voru eftir í stöðunni 58-57 átti Ísland 2 víti sem bæði fóru forgörðum og því ljóst að íslenska vörnin yrði að halda til að tryggja sigur á mótinu eftir þvílíkan spennu og dramaleik. Vörnin hélt og drengirnir fögnuðu frábærum sigri í annað sinn. Tekið skal fram að leikmenn pólska liðsins voru til fyrirmyndar og voru nokkrir frábærir strákar í þeirra liði. Valur Orri Valsson var svo valinn í úrvalslið mótsins. Ég veit að þessi pistill er orðinn býsna langur en ég vona að fólk nenni að lesa hann enda ekki annað hægt en að rekja þessa dramatísku atburðarás með ítarlegum hætti. Leikmenn íslenska liðsins eru rúmlega reynslunni ríkari og hafa upplifað að eitt og annað getur gerst í heimi íþróttanna. Á mynd er Emil Karel Einarsson fyrirliði liðsins. Mynd SÖA Áfram Ísland