23 maí 2009Finnland vann öruggan sigur á Íslandi 92-37 í lokaleiknum hjá U-16 stúlkna. Eins og lokatölur gefa til kynna var sigur þeirra bláu aldrei í hættu. Stelpurnar sýndu þá á köflum afar fína takta og ljóst að munurinn á þessum liðum er ekki svona mikill. Byrjunarlið Íslands: María Ben Jónsdóttir, Eva Rós Guðmundsdóttir, Thelma Ásgeirsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir og Margrét Rósa Hálfdanardóttir. Það var ljóst frá fyrstu mínútu í hvað stemmdi en það var þó Ísland sem skoraði fyrstu körfuna en það gerði Eva Rós Guðmundsdóttir. Þá komu 12 stig í röð hjá Finnlandi og róður Íslands orðin frekar þungur strax í upphafi. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 25-9 Finnum í vil. Stelpurnar sýndu klærnar í öðrum leikhluta en þær byrjuðu að minnka muninn jafnt og þétt. Á þessum kafla voru þær grimmar í vörninni ásamt því að þær pössuðu boltann mun betur. Því að í hvert skipti sem boltinn tapaðist þá voru Finnarnir snöggir upp völlinn til að refsa. Stelpurnar náðu tveim góðum rispum í leikhlutanum og minnkuðu muninn í 11 og 13 stig. En nær komust þær ekki að sinni og Finnarnir juku muninn og staðan í hálfleik 48-25. Byrjunin í seinni hálfleik hjá Íslandi var afleit en stelpurnar töpuðu hverjum boltanum á fætur öðrum gegn sterkri boltapressu hjá Finnlandi. Svo fór að fyrstu 13 stig leikhlutans voru finnsk en stlepurnar náðu þó aðeins að svara og staðan var 61-30 þegar um 3 mínútur voru eftir af þriðja. Finnarnir kláruðu leikhlutann sterkt en þær finnsku skoruðu tíu stig gegn tveimur frá Íslandi og því munurinn kominn í 39 stig 71-32. Það var aldrei spurning hvað myndi gerast í fjórða leikhluta en þær finnsku héldu áfram að keyra á íslensku stelpurnar og munurinn jókst jafnt og þétt og að lokum var staðan orðin 92-37 fyrir Finnlandi. Ísland mætir Danmörku á morgun í leik um þriðja sætið en þegar þessi lið mættust í vikunni þá unnu Danir í ótrúlegum leik þar sem Íslandi átti að vinna. Hefst leikurinn kl. 08.30(06.30 að íslenskum tíma) Stig: María Ben Jónsdóttir 8 stig Margrét Rósa Hálfdanardóttir 7 stig Eva Rós Guðmundsdóttir 5 stig Berglind Gunnarsdóttir 5 stig Ína María Einarsdóttir 4 stig Árnína Lena Rúnarsdóttir 3 stig Hrafnhildur Sævarsdóttir 2 stig Árný Sif Gestsdóttir 2 stig Thelma Ásgeirsdóttir 1 stig Sandra Grétarsdóttir, Sigrún Albertsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir spiluðu en náðu ekki að skora.