22 maí 2009Eftir tvö erfiða leiki gegn Finnum og Svíum mættu stelpurnar í U-18 Noregi. Er þetta annar af tveimur leikjum liðsins í dag en seinni partinn mæta þær Dönum. Eftir jafna og harðan leik hafði Noregur betur 59-57. Byrjunarlið Íslands: Heiðrún Kristmundsdóttir, Salbjörg Svavarsdóttir, Björg Einarsdóttir, Lóa Dís Másdóttir og Þorbjörg Fiðriksdóttir. Stelpurnar sýndu mun betri leik í dag en frammistaða þeirra var allt önnur heldur en í fyrstu tveimur leikjunum. Leikurinn hófst af miklum krafti og stelpurnar að leita að sínum fyrsta sigri. Það voru þó þær norsku sem höfðu frumkvæðið til að byrja með og leiddu með aðeins þremur stigum 14-17 eftir fyrsta leikhluta. Ísland átti í vandræðum með sóknarfráköstin en þær norsku fengu ítrekað tvö til þrjú skot í sókn. Annar leikhluti var ekkert ósvipaður þeim fyrsta. Bæði lið að spila á fullu en hvorugt liðið að komast á þannig flug að þau gátu stundið af. Íslenska liðið spilaði pressuvörn hátt sem riðlaði sóknarleik Noregs og neyddust þær til að taka nokkur léleg skot. Í hálfleik höfðu þó þær norsku aukið muninn og var hann sex stig í hálfleik 22-28. Íslenska vörnin var sterk en sóknarleikurinn aftur á móti ekki eins öflugur. Noregur var sterkari á öllum sviðum í þriðja leikhluta að fyrstu mínútunum undanskildum þegar Ísland komst einu stigi yfir en eftir það kom frábær kafli hjá Noregi og íslenska liðið náði ekki að nálgast þær norsku að neinu ráði eftir það í leikhlutanum. Noregur leiddi 35-45 fyrir lokaleikhlutann. Fyrstu mínútur leikhlutans var jafnt með liðum. Þau skiptust á körfum en um hann miðjan kom frábær kafli hjá Íslandi en þá skoruðu þær 12-0 og komust yfir 55-51 þegar tvær mínútur voru eftir. Noregur náði að jafna og komast yfir í lokin. Í stöðunni 57-59 fyrir Noreg fer Ísland í sókn með 12 sekúndur á klukkunni en ofaní vildi boltinn ekki eftir ágætt gegnumbrot. Noregur hafði þar með sigur. Íslensku stelpurnar sýndu mikla seiglu í leiknum og frábæra baráttu. Þær komu í veg fyrir að Noregur stakk þær af og með smá heppni hefði sigurinn verði með íslensku stelpunum. Stig: Heiða Valdimarsdóttir 10 stig Heiðrún Kristmundsdóttir 9 stig Sara Magnúsdóttir 9 stig Heiðrún Jónsdóttir 6 stig Þorbjörg Friðriksdóttir 5 stig Björg Einarsdóttir 5 stig Bergdís Ragnarsdóttir 4 stig Jenný Harðardóttir 3 stig Dagmar Traustadóttir 3 stig Rannveig Ólafsdóttir 2 stig Salbjörg Svavarsdóttir 1 stig Lóa Dís Másdóttir spilaði en náði ekki að skora.