21 maí 2009Annar leikur stelpnanna í U-18 kvenna var gegn Svíþjóð. Svíar eru með sterkt lið og ætla sér mikla hluti á mótinu. Lokatölur leiksins voru 110-33 Svíum í vil. Byrjunarlið Íslands: Heiðrún Kristmundsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir, Heiða Björg Valdimarsdóttir, Björg Einarsdóttir og Þorbjörg Friðriksdóttir. Það var mikill kraftur í íslensku stelpunum í upphafi leiksins og greinilegt að þær létu ekki stórt tap gegn Finnum kvöldið áður sitja í sér. Jafnt var á öllum tölum fyrstu mínúturnar og Svíarnir héldu í þær íslensku. Þegar þrjár mínútur voru eftir kom afleitur kafli hjá Íslandi en Svíþjóð setti næstu 12 stig leiksins. Komu þau öll eftir tapaðan bolta hjá Íslandi, hvort sem það var ruðningur eða léleg sending. Svíarnir refsuðu grimmilega við hvert tækifæri. Þær fengu þó nokkur góð skot en ofaní vildi boltinn ekki. Staðan eftir 1. leikhluta 24-12 fyrir heimastúlkur. Annar leikhluti var íslensku stelpunum afar erfiður en grimm maður á mann vörn Svíana var að neyða þær til að kasta boltanum frá sér regulega. Flestir þessara töpuðu bolta skiluðu körfu hinum megin í formi hraðaupphlaups. Ísland náði bara 20 skotum á körfuna í fyrri hálfleik gegn 35. Í hálfleik munaði 25 stigum 44-19 og stelpurnar áttu erfitt verk framundan. Í þriðja leikhluta hélt sama sagan áfram nema að núna voru Svíarnir farnir að spila pressuvörn af krafti sem gerði verkefni stelpnanna enn erfiðara. Þær skoruðu aðeins sjö stig í leikhlutanum gegn 39. Munurinn hélt áfram að aukast í fjórða leikhluta og Svíarnir keyrðu og spiluðu eins stíft og þær gátu. Lokatölur leiksins voru 110-33. Stigahæst hjá Íslandi var Björg Einarsdóttir en hún skoraði 10 stig og Sara Mjöll Magnúsdóttir skoraði 6. Stig: Björg Einarsdóttir 10 stig Sara Mjöll Magnúsdóttir 6 stig Heiða Björg Valdimarsdóttir 4 stig Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 4 stig Heiðrún Kristmundsdóttir 3 stig Jenný Harðardóttir 2 stig Bergdís Ragnarsdóttir 2 stig Salbjörg Svavarsdóttir 2 stig Rannveig Ólafsdóttir, Dagmar Traustadóttir, Heiðrún Hödd Jónsdóttir og Lóa Dís Másdóttir léku allar en náðu ekki að skora. Næsti leikur stelpnanna er gegn Noregi í fyrramálið kl. 11.00(09.00 að íslenskum tíma)