20 mar. 2009Úrslitakeppni 1. deildar karla hefst í kvöld með fyrstu leikjum Vals og KFÍ og Hauka og Fjölnis. Það lið sem fyrr sigrar 2 leiki kemst áfram í úrslitaviðureignina um hvaða lið fylgir sigurvegurum Hamars upp í Iceland Express-deildina að ári, en vinna þarf tvo leiki á ný í úrslitunum til að tryggja sér sigur í rimmunni. Valur og KFÍ mættust tvisvar í vetur. Valsmenn fóru til Ísafjarðar í fyrri umferðinni og höfðu þar sigur 59:70. Í seinni umferðinni komu svo KFÍ-menn í bæinn og sigruðu 82-89 í Vodafone-höllinni. Valsmenn höfnuðu í 2. sæti í deildinni og eiga því heimavallarréttinn í þeim viðureignum sem þeir eiga eftir í úrslitakeppninni. Haukar og Fjölnir mætast í hinni úrslitaviðureigninni. Haukar enduðu í 3. sæti í deildinni og fá því Fjölni sem endaði í 4. sæti. Haukar höfðu sigur í báðum leikjum þessara liða í vetur með tveimur stigum, fyrst 72:74 í Grafarvoginum og svo 77:75 á sínum heimavelli á Ásvöllum. Haukar spiluðu fyrri leikinn án George Byrd, en hann kom ekki til liðs við Hauka fyrr en eftir áramót, og Fjölnismenn hafa fengið til sín nýjan erlendan leikmann í lok tímabilsins þar sem Patrick Oliver hefur átt við meiðsli að stíða að stórum hluta tímabilsins. Það má því búast við hörku leikjum milli þessara liða í úrslitakeppninni en bæði lið stefna á að fara upp um deild á þessu tímabili. KKÍ.is fékk Ágúst Björgvinsson, þjálfara Hamars og íslenska kvennalandsliðsins til að spá fyrir um þessa viðureignir: Valur · KFÍ: „Valur vinnur 2-1. Stendur og fellur með leikstjórnanda KFÍ, Craig Schoen og hvað hann gerir, þeir vinna heima á Ísafirði en ég held að þeir vinna ekki 2 leiki“ sagði Ágúst. Haukar · Fjölnir: „Haukar unnu síðasta leik í framlengingu þannig að þetta verður jafnt, ef Fjölnismenn keyra upp hraðann og ná stemningu í sitt lið þá vinna þeir 2-0“ segir Ágúst sem spáir Fjölni upp um deild. „Það getur enginn sagt til um úrslitin, vonlaust að spá, mest spennandi úrslitakeppnin í ár“ sagði Ágúst að lokum. Leikir kvöldsins: Leikir 1 · föstudaginn 20. Mars Valur · KFÍ kl 20.00 í Vodafone-höllinni Haukar · Fjölnir kl 19.15 á Ásvöllum Næstu leikir: 2. leikur · 22. mars kl. 19.15 · Ísafjörður 3. leikur · 24. mars kl. 20.00 · Vodafone-höllin · (Oddaleikur ef þarf) 2. leikur · 22. mars kl. 19.15 · Íþróttamiðstöðin Grafarvogi 3. leikur · 24. mars kl. 19.15 · Ásvellir · (Oddaleikur ef þarf) Stefnt er að því að lokaúrslitin hefjist svo föstudaginn 27. mars.