19 feb. 2009Það er Pau Gasol hinn spænski, leikmaður Los Angeles Lakers sem varð hlutskarpastur í kjöri besta leikmanns Evrópu hjá FIBA Europe. Pau fer mikin þessa dagana með Lakers. Hann hjálpaði liði sínu að komast í úrslitakeppnina í fyrra eftir að hafa komið frá Memphis og var með tæp 19 stig að meðaltali, 8 fráköst og 1.6 varin skot í 27 leikjum með Lakers. Þá hefur hann verið einn af máttarstólpunum í spænska landsliðinu sem er eitt besta landslið í heimi um þessar mundir, en Spánn hlaut silfrið á nýyfirstöðnum Ólympíuleikum í Kína. Pau var til að mynda með 31 stig og 9 fráköst gegn Angola, 20 stig og 10 fráköst gegn Króatíu og svo 21 stig og 6 fráköst gegn Bandaríkjamönnum í úrslitaleiknum. "Pau er núna að ná hátindi ferils síns. Hann er einn besti leikmaður heims og það verður spennandi að fylgjast með honum á EM í september í Póllandi." sagði framkvæmdastjóri FIBA Europe Nar Zanolin. Það var samherji Pau í spænska landsliðinu og leikmaður Portland Trailblazers, Rudy Fernandez, sem hafnaði í öðru sæti í ár. Úrslitin í kjörinu: 1. Pau Gasol 2. Rudy Fernandez 3. Dirk Nowitzki 4. Ramunas Siskauskas 5. Tony Parker 6. Hidayet Turkoglu 7. Andrei Kirilenko 8. Luol Deng 9. Andris Biedrins 10. Dimitris Diamantidis 11. Nikola Pekovic 12. Zoran Planinic