26 jan. 2009Aðdáendur kvennakörfuboltans í Evrópu eiga nú möguleika á að sjá bestu liðin og leikmenn þeirra kljást á skjánum heima í stofu á Eurosport 2. Allir bestu leikmenn heims í kvennaboltanum spila í Meistaradeildinni og því er þetta frábært tækifæri til að sjá toppleiki í sjónvarpinu. FIBA Europe hefur náð samkomulagi við stöðina um að sýna beint eða samdægurs frá leikjum í Meistaradeild kvenna. Samningurinn nær frá átta liða úrslitunum og allt fram í úrslitaleikinn. Undanúrslitin fara fram 3. til 5. mars næstkomandi. Evrópumeistarar Spartak Moskvu taka á móti ZVVZ USK Prag á morgun 27. janúar fyrir þá sem hafa áhuga á og geta nálgast Eurosport 2. Eurosport 2 nær til 34 milljón heimila á 11 tungumálum í 46 löndum Evrópu og lýstu bæði forsetar FIBA Europe sem og FIBA mikilli ánægju með að hafa náð samkomulagi við stöðina enda er það frábær lyftistöng fyrir kvennakörfuboltann.