18 sep. 2008Íslenska karlalandsliðið er nú komið til Austurríki þar sem liðið spilar lokaleik sinn í Evrópukeppninni í haust. Spilað er í Güssing sem er fjögur þúsund manna bær í suð-austur Austurríki en hann er í um tveggja klukkutíma fjarlægð frá höfuðborginni Vín. Íslenska landsliðið hefur unnið 10 af 16 leikjum sínum á móti Austurríki en aðeins tvo af þeim sex leikjum sem hafa farið fram í Austurríki. Það er því ljóst að heimavöllurinn skiptir Austurríkismenn miklu máli í landsleikjunum á móti Íslandi. Síðasti landsleikur Íslands gegn Austurríki á útivelli var spilaður undir sömu kringumstæðum fyrir tveimur árum. Austurríki tók þá á móti íslenska liðinu í lokaleik fyrri umferðar en þá var spilað í Klosterneuburg sem er 25 þúsund manna bær norður af Vín. Austurríki vann leikinn með 21 stigi, 85-64, eftir að hafa farið illa með íslenska liðið í lokaleikhlutanum en Austurríki vann fjórða leikhlutann 32-14. Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu í þessum leik með 14 stig en Magnús Þór Gunnarsson skoraði 11 stig. Jón Arnór Stefánsson hafði meiðst í leiknum á undan á móti Lúxemborg og gat því ekki spilað leikinn. Íslensku strákarnir eiga miklu betri minningar úr síðasta leik á móti Austurríki sem fram fór í Laugardalshöllinni fyrir ári síðan. Ísland vann þá sannfærandi 14 stiga sigur, 91-77, þar sem Jakob Örn Sigurðarson fór á kostum og var með 21 stig og 10 stoðsendingar, 58 prósent skotnýtingu og engan tapaðan bolta. Jakob var einn af fimm mönnum sem skoruðu yfir tíu stig í leiknum en Páll Axel Vilbergsson (13 stig), Fannar Ólafsson (12 stig, 8 fráköst), Helgi Már Magnússon (11) og Logi Gunnarsson (10 stig) náðu því allir. Íslenska liðið skoraði alls 17 þrista í leiknum en þar af var Jakob með fimm þriggja stiga körfur og þeir Páll Axel og Helgi Már skoruðu þrjár hvor. Eitt besta dæmið um gott gengi Austurríkismanna á heimavelli á móti Íslandi eru tveir æfingaleikir sem voru spilaðir með þriggja daga millibili sumarið 2004. Sá fyrri var spilaður í St. Polten í Austurríki og hann unnu Austurríkismenn með 15 stigum, 96-81. Sá seinni var spilaður á æfingamóti í Ungverjalandi þremur dögum síðar og þann leik vann Ísland með þremur stigum. 74-71. Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur í fyrri leiknum með 16 stig og Jakob Sigurðarson skoraði 13 stig en í þeim seinni skoraði Magnús Þór Gunnarsson mest eða 17 stig og Jakob kom síðan næstur með 13 stig. Landsleikir við Austurríkismenn í Austurríki: 31.5.1985 í Linz, Austurríki-Ísland 63-72 27.3.1986 í Innsbruck, Austurríki-Ísland 75-69 31.3.1986 í Innsbruck, Austurríki-Ísland 78-65 23.6.1993 í Vín, Austurríki-Ísland 73-95 25.8.2004 í St. Pölten, Austurríki-Ísland 96-81 16.9.2006 í Klosterneuburg, Austurríki-Ísland 85-64