17 sep. 2008Miðherjinn ungi Sigurður Gunnar Þorsteinsson er að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu og mun leika sinn ellefta landsleiká móti Svartfellingum í kvöld. Það mætti halda að Sigurður Gunnar væri happaleikmaður fyrir A-landsliðið því síðan að hann hefur komið inn í liðið þá hefur Ísland ekki tapað í Laugardalshöllinni. Fram að því hafði liðið tapað öllum leikjum sínum í Höllinni í níu ár. Það reynir vissulega á bæði Sigurð og áhrifamátt hans í kvöld þegar karlalandsliðið tekur á móti Svartfellingum í Laugardalshöllinni í síðasta heimaleik sínum í haust. Sigurður Gunnar fær örugglega tækifæri til að glíma við hina hávöxnu leikmenn Svartfellinga en það er nóg af þeim í boði. Leikurinn hefst klukkan 19.15 Sigurður sem er 20 ára og 203 cm á hæð kemur frá Ísafirði en spilar með Íslandsmeisturum Keflavíkur þar sem hann var kosinn besti ungi leikmaðurinn í Iceland Express deildinni á síðasta tímabili eftir að hafa verið með 6,9 stig og 5,5 fráköst á 16,6 mínútum að meðaltali í deildarkeppninni. Sigurður skoraði síðan jafnmörg stig í leik (6,9) í úrslitakeppninni. Það er gaman að bera saman byrjun ferils Sigurðar við byrjun hins gamalreynda Friðriks Stefánssonar sem þurfti að bíða í áratug eftir að vinna landsleik í Laugardalshöllinni. Friðrik vann sinn fyrsta landsleik í Höllinni í þrettándu tilraun þegar Ísland vann Georgíu í Evrópukeppninni í fyrra. Jón Arnór Stefánsson vann einnig sinn fyrsta landsleik í Höllinni á móti Dönum fyrir viku síðan en hann var þá á að leika sinn sjötta A-landsleik í Laugardalshöll.