
4 sep. 2008Guðrún Ósk og Sigrún Sjöfn Ámundadætur urðu í gær fyrstu systurnar í heil 22 ár til þess að spila saman í A-landsliðinu þegar þær léku báðar með á móti Slóveníu. Sigrún er búin að vera með landsliðinu í allt haust en Guðrún lék sinn fyrsta landsleik. Það hefur aðeins einu sinni gerst að systur hafi spilað saman í landsliðinu áður en það voru ÍR-ingarnir Þóra og Guðrún Gunnarsdætur sem gerðu það á Norðurlandamótinu í Uppsala 1986. Guðrún Gunnarsdóttir var fyrirliði íslenska liðsins á Norðurlandamótinu 1986 og skoraði þá 8 stig í fjórum leikjum en Þóra yngri systir hennar skoraði 12 stig í leikjunum fjórum. Guðrún lék ekki fleiri leiki en þessa fjóra en Þóra bætti við tveimur leikjum í safnið árið eftir. Þess má geta að Guðrún (eldri systirin) spilaði númer sex á Norðurlandamótinu 1986 en Þóra var þá númer tólf. Í gær var Guðrún Ámundadóttir (eldri systirin) númer sjö en Sigrún lék eins og Þóra í númer tólf. Sigrún og Guðrún skoruðu báðar í leiknum á móti Slóveníu, Sigrún setti niður þriggja stiga körfu og Guðrún setti niður tvö vítaskot af miklu öryggi sem hún fékk eftir að Euroleague-leikmaðurinn Daliborka Jokic braut á henni og fékk þá um leið sína fimmtu villu.