19 apr. 2008Lokaúrslit Iceland Express deildar karla hefjast í dag klukkan 16:00 þegar Keflavík tekur á móti Snæfelli í Toyota-Höllinni í Keflavík. Það má búast við frábærum leik í dag en bæði þessi lið hafa leikið frábærlega í síðustu leikjum. Keflavík þurfti 5 leiki til þess að sigra ÍR og tryggja sér sæti í úrslitunum. Þeir unnu 3 leiki í röð eftir að hafa lent 2-0 undir. Snæfell sigraði Grindavík í 4 leikjum og tryggðu sér sæti í úrslitunum með frábærum leik þar sem þeir sýndu ótrúlega baráttu og sigurvilja. Þessi lið mættust í lokaúrslitum 2005 en þá urðu Keflvíkingar Íslandsmeistarar. Borgarskotið verður á milli leikhluta og einnig mun Express Hringlið verða í einhverju leikhléinu. Iceland Express gefur þeim sem tekst að skora í þessum leikjum ferð til eins af áfangastöðum sínum. Áhorfendur eru hvattir til að mæta tímanlega í Toyotahöllina því að gífurlegur áhugi hefur verið fyrir leikjunum í úrslitakeppninni og það þurftu þó nokkrir frá að hverfa í síðasta leik Keflavíkur og ÍR en það var uppselt á leikinn 15 mínútum fyrir upphaf hans. Bæði lið eiga sterka stuðningsmannahópa og það má búast við frábærri stemningu.