1 nóv. 2007Í kvöld verða 5 leikir í Iceland Express deild karla. Það verða margir stórleikir á dagskrá og körfuboltaáhugamenn geta valið úr mörgum skemmtilegum leikjum í kvöld. Í DHL-Höllinni mætast KR og Njarðvík í fyrsta sinn síðan í úrslitunum í vor. Það er mikil spenna í loftinu fyrir þennan leik enda stefna bæði lið hátt í vetur. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður í beinni útsendingu á Sýn. Í Garðabæ mætast nýliðar deildarinnar þegar Stjarnan tekur á móti Þór Akureyri. Þór hafði mikla yfirburði í 1 deildinni í fyrra en Stjarnan hefur styrkt leikmannhóp sinn töluvert síðan þá. Á Sauðárkróki mæta heimamenn í Tindastól liði Grindavíkur. Bæði lið hafa leikið nokkuð vel í byrjun tímabils og unnið þrjá af fjórum fyrstu leikjum sínum. Í Borgarnesi mætir Skallgrímur liði Fjölnis. Bæði lið hafa átt á brattan að sækja í fyrstu umferðunum og eru með 1 sigur eftir fjóra leiki. Í Keflavík mætir topplið Keflavíkur bikarmeisturum ÍR. Keflvíkingar hafa enn ekki tapað leik en ÍR-ingar hafa unnið tvo leiki og tapað tveimur. Á morgun lýkur svo 5. umferðinni þegar Hamar mætir Snæfelli í Hveragerði.