7 okt. 2007Keflavík og KR urðu í kvöld Meistarar meistaranna. Keflavík vann öruggan sigur á Haukum í kvennaleiknum. Jafnræði var með liðunum í byrjun fyrsta leikhluta en Keflavík endaði leikhlutann vel. Þær voru svo mun sterkara liðið á vellinum það sem eftir lifði leiks og juku forskot sitt allan leikinn. Lokatölur leiksins voru 84-52. Karlaleikurinn á milli KR og ÍR var jafnari. KR-ingar byrjuðu vel í fyrsta leikhluta en ÍR-ingar náðu þeim fljótlega aftur. Leikurinn var í járnum fram í fjórða leikhluta en þá náðu KR-ingar góðum kafla og tryggðu sér sigur í leiknum 75-62. Þetta er annar titill KR í vetur en þeir urðu Reykjavíkurmeistarar í haust og einnig annar titillinn hjá Keflavík sem sigraði í Powerade bikarkeppninni í síðustu viku.