17 júl. 2007Árni Ragnarsson leikmaður Fjölnis tók á dögunum þátt í körfuboltabúðum í Alabama í Bandaríkjunum en búðirnar heita Colonnade Camps og var þetta í 17. skipti sem búðirnar eru haldnar. Árni fór á kostum þar og var að lokum valinn MVP(Mikilvægasti leikmaður) stjörnuleiks mótsins. Árni sem lengi hefur haft hug á að komast í skóla í Bandaríkjunum hefur verið í sambandi við þjálfara þar ytra og allir hafa viljað sjá hann spila. Hann fór því í þessar búðir þar sem boðið er efnilegustu leikmönnum í High school í Alabama og fylkjum í kring og voru þarna um 120 strákar. Aðalþjálfari búðanna er Ronnie Stabler sem hefur verið High school þjálfari í 39 ár og með honum voru 15 aðstoðarmenn sem allir eru að þjálfa High school lið. Auk þess voru um 70 njósnarar úr bandarískum háskólum á svæðinu. Eins og fyrr segir fór Árni á kostum í stjörnuleik mótsins og tróð m.a. með tilþrifum í miðri sókn. Einnig stóð hann sig vel í leik Úrvalsliðs búðanna og Alabama Challenge sem er lið sem samanstendur af High school leikmönnum sem komnir eru með samning við lið í NCAA I deildinni, t.d. North Carolina. Þá var Árni í sigurliði 3 á 3 keppni mótsins sem og 5 á 5 keppninni. Að búðunum loknum voru nokkrir skólar sem buðu Árna fullan skólastyrk en hann ætlar að hugsa málið þar sem hann hefur ákveðna skóla í huga. (Frétt tekin af karfan.is)