19 maí 2007Öll fjögur landsliðið keppast um það í dag að því að fá að spila um verðlaun á Norðurlandamótinu í Solna í Stokkhólmi. Leikirnir um sæti fara fram á morgun, sunnudag. Strákaliðin eiga bæði möguleika á að komast í úrslitaleikinn en stelpuliðin þurfa bæði að vinna Noreg í dag til þess að komast í leikinn um 3. sætið. 18 ára strákarnir eru í sérstakri stöðu því þeir spila til úrslita vinni þeir Svía í dag en tapist leikurinn enda þeir í 5. og neðsta sæti og hafa um leið lokið leikjum sinum á Norðurlandamótinu. 16 ára strákarnir mæta Finnum og með sigri eru þeir komnir í úrslitaleikinn þar sem að þeir eru með bestu innbyrðisstöðuna verði Ísland, Svíþjóð og Danmörk jöfn. Tapist leikurinn spila strákarnir um 3. sætið á mótinu. Danir sem unnu Íslendinga í gær verða að vinna Noreg og treysta á að Finnar vinni Ísland svo að þeir komist í úrslitaleikinn. Danir eru nefnilega með lökustu stöðuna innbyrðis verði Ísland, Svíþjóð og Danmörk jöfn. 18 ára stelpurnar mæta Noregi í heinum úrslitaleik um hvort liðið spilar um bronsið. Norðmenn unnu Finna í gær og eru til alls líklegar. 16 ára stelpurnar eru í svipaðri stöðu en þær spila við Norðmenn og komast í leikinn um bronsið með sigri.