15 maí 2007U18 ára landslið kvenna lék í gær æfingaleik við Íslandsmeistara Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði. Lokatölur leiksins urðu 63-68 fyrir Haukum. Þetta hlýtur að teljast ágætis árangur því að lið Hauka er eins og flestir vita feiknasterkt. Vonandi verður þetta gott veganesti fyrir stelpurnar sem að fara til Svíþjóðar í fyrramálið til þess að taka þátt í Norðurlandamóti unglinga. Ágúst Björgvinsson, þjálfari liðsins, hefur útnefnt fyrirliða og varafyrirliða landsliðsins. Margrét Kara Sturludóttir verður fyrirliði og Kristín Fjóla Reynisdóttir verður varafyrirliði á NM 2007. Nánar verður sagt frá liðinu á morgun. Ingibjörg Jakobsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir voru stigahæstar hjá 18 ára liðinu í leiknum en þær skoruðu báðar 12 stig. Margrét Kara var einnig með 8 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Unnur Tara Jónsdóttir kom þeim næst með 11 stig og 6 fráköst, Íris Sverrisdóttir skoraði 6 stig og Klara Guðmundsdóttir var með 5 stig. Helena Sverrisdóttir var með 24 stig, 12 fráköst, 10 stoðsendingar og 9 stolna bolta hjá Haukum, Sigrún Ámundadóttir skoraði 12 stig og tók 14 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 9 stig og 5 stolna bolta.