22 okt. 2006Nýliðar Hamars/Selfoss í Iceland Express deild kvenna stóðu sig vel í sínum fyrsta leik í 1. umferð deildarinnar en hún fór öll fram í Grindavík á laugardaginn. Í tilefni af Ári kvennakörfunnar í Evrópu var opnunarumferð deildarinnar spiluð öll á sama stað og tókst umgjörð og framkvæmd leikjanna mjög vel. Gestgjafar Grindavíkur tóku vel á móti hinum liðunum fimm sem skipa deildina og þó svo að spennan hafi mátt vera meiri í síðari leikjunum tveimur þá var opnunarleikurinn hin besta skemmtun. Grindavík vann Hamar/Selfoss 86-74 í fyrsta leik dagsins og þar með deildarinnar en þetta var fyrsti leikurinn hjá hinu unga liði Hamars/Selfoss í efstu deild kvenna. Grindavík hafði forustuna stærstan hluta leiksins en í hálfleik munaði aðeins þremur stigum en Grindavík var þá 36-33 yfir. Tamara Bowie skoraði 25 af 35 stigum sínum í seinni hálfleik og reyndist gestunum illviðráðanleg en hún tók auk þess 20 fráköst í leiknum. Hjá Hamar/Selfoss áttu þær Atari Parker (25 stig, 21 fráköst, 8 varin, 8 stoðsendingar), Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir (24 stig, hitti úr 6 af 10 þriggja stiga skotum) og Sóley Guðgeirsdóttir (13 stig) allar mjög góðan leik. Íslandsmeistarar Hauka áttu ekki í miklum vandræðum með Stúdínum en liðin mættust þarna þriðju helgina í röð eftir að hafa spila undanúrslitaleik í Powerade-bikarnum fyrir tveimur vikum og síðan í Meistarakeppninni um síðustu helgi. Haukar unnu nú með 51 stigi sem var stærsti sigurinn í öllum leikjunum þremur. Ifeoma Okonkwo var með 23 stig og 11 fráköst, Helena Sverrisdóttir bætti við 21 stigi og 11 stoðsendingum og maður leiksins, Kristrún Sigurjónsdóttir var með 21 stig, 6 fráköst og nýtti 8 a 14 skotum sínum. Hjá ÍS var Helga Jónasdóttir með 19 stig og 13 fráköst. Lokaleikurinn milli Keflavíkur og Breiðabliks var aldrei spennandi, Keflavík skoraði 8 fyrstu stigin, komst í 21-4 og vann að lokum með 75 stiga mun, 121-46. TaKesha Watson sýndi góð tilþrif í sínum fyrsta leik með Keflavík og skoraði 28 stig og gaf 7 stoðsendingar á 21 mínútu. María Ben Erlingsdóttir var með 25 stig, 9 fráköst og 80% skotnýtingu (12 af 15) og Birna Valgarðsdóttir skoraði 18 stig. Svava Ósk Stefánsdóttir lék aðeins í 22 mínútur en gældi við fjórfalda tvennu, var með 8 stig, 11 fráköst, 8 stolna bolta og 7 stoðsendingar. Hjá Breiðabliki var Tiara Harris með 23 stig og Telma Ósk Fjalarsdóttir skoraði 13 stig og tók 10 fráköst. Aðrir leikmenn liðsins skoruðu aðeins 10 stig og klikkuðu á 22 af 24 skotum sínum.