11 okt. 2006Logi Gunnarsson var sjóðheitur í fyrsta leik sínum í byrjunarliði ToPo Helsinki í finnsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Logi skoraði 36 stig í 94-82 sigri liðsins á Tampereen Pyrinto á útivelli. Logi var með 13 stig í fyrsta leiknum sínum um síðustu helgi en hann kom þá inn af bekknum í 88-71 sigri á UU-Korihait. Enginn leikmaður í finnsku deildinni hefur skorað meira í einum leik á tímabilinu en Logi í kvöld en fjórar umferðir eru búnar í deildinni. Logi skoraði stigin 36 á 32 mínútum í kvöld og setti meðal annars niður átta þrista úr aðeins 13 skotum fyrir utan. Skotnýting Loga var líka frábær því 12 af 20 skotum hans og 4 af 5 vítum fóru rétta leið. Logi var auk þess með 5 fráköst og 3 stoðsendingar. ToPo Helsinki er eftir leikinn í 1. til 4. sæti deildarinnar með 3 sigra í 4 leikjum. ToPo Helsinki var tíu stigum undir í hálfleik, 53-43, en Logi fór fyrst á flug í seinni hálfleiknum þegar hann skoraði 22 af 36 stigum sínum og nýtti þá 7 af 10 skotum. Logi klikkaði reyndar á tveimur fyrstu skotum sínum í seinni hálfleik en fann svo heldur betur körfuna og ToPo Helsinki vann síðustu 19 mínútur leiksins með 25 stiga mun, 51-26. Logi skoraði eins og áður sagði 22 af þessu 51 stigi. Með þessum leik í kvöld er Logi orðinn stigahæsti leikmaður finnsku deildarinnar með 25,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum sínum en hann er einnig sá sem hefur sett niður flesta þrista að meðaltali eða 5,5 í leik. Logi hefur nýtt 11 af 20 fyrstu þriggja stiga skotum sínum í finnsku deildinni.