30 sep. 2006Fyrstu umferð í Powerade bikarkeppni karla lauk í gær með leik ÍR og Hauka í Seljaskóla. Þar báru Haukar sigur af hólmi og unnu sér þar með rétt til að leika í átta liða úrslitum gegn Skallagrími. Grindavík, Hamar/Selfoss og Tindastóll sigruðu í sínum leikjum á fimmtudagskvöldið og tryggðu sér því einnig sæti í átta liða úrslitum. Í kvöld klukkan 19:15 mun Njarðvík taka á móti Hamri/Selfoss í Njarðvík. Hamar/Selfoss komst áfram með því að sigra Fjölni 84-74 á fimmtudaginn. Á sunnudag lýkur svo átta liða úrslitunum með þremur leikjum. Klukkan 16:00 mætast KR og Grindavík á heimavelli KR. Grindavík sigraði Þór Þorlákshöfn 80-74 í Grindavík á fimmtudagskvöldið. KR hafði þegar tryggt sér sæti í Átta liða úrslitum ásamt Njarðvík, Keflavík og Skallagrím. Fjögur efstu liðin frá því í fyrra komust sjálfkrafa í átta liða úrslit og eiga heimavallarréttindi þar. Klukkan 19:15 mætast svo Keflavík og Tindastóll annars vegar og svo Skallagrímur og Haukar. Skallagrímur og Keflavík munu leika á heimavelli í þessum viðureignum. Tindastóll kom mörgum á óvart með því að sigra Snæfell á Stykkishólmi á fimmtudagskvöldið. Í þeim leik fór Lamar Karim, Bandaríkjamaðurinn í röðum Tindastóls, á kostum og skoraði 45 stig. Það verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum í Powerade bikarnum um helgina. Hver leikur er úrslitaleikur um hvaða lið kemst áfram og ætti baráttan því að vera í hámarki.