12 sep. 2006Íslenska karlalandsliðið leikur á morgun gegn Lúxemburg í B-deild Evrópukeppninnar í körfuknattleik. Leikurinn verður í Keflavík og hefst hann kl. 20:00. Ljóst er að það er nauðsynlegt fyrir íslenska liðið að sigra í þessum leik til þess að eiga áfram möguleika á því að komast upp í A-deild Evrópukeppninnar. Luxembourg hafa líkt og við tapað báðum sínum leikjum til þessa. Fyrst voru það Georgíumenn sem unnu þá nokkuð auðveldlega í Tbilisi, 86 – 44 þar sem Luxarar sáu aldrei til sólar. Næsti leikur þeirra var svo gegn Austurríkismönnum á heimavelli, það benti fátt til annars en að Luxembourg tækist að vinna sinn fyrsta leik en staðan var 60 – 42 fyrir þá þegar um 3 mínútur voru eftir. En á ótrúlegan hátt tókst gestunum frá Austurríki að koma til baka og sigra 62 – 64 en þeir unnu lokakaflann 5 – 24. Íslensku strákarnir eru staðráðnir í því að komast á sigurbraut og eru allir klárir í slaginn. Frekari upplýsingar um liðin munu birtast á síðunni á morgun.