9 sep. 2006Íslenska kvennalandsliðið tapaði með fimm stigum, 61-66, í fyrsta evrópuleiknum frá upphafi sem fram fór í Rotterdam í kvöld. Íslensku stelpurnar spiluðu mjög vel, voru yfir nánast allan tímann en þurftu að horfa á eftir sigrinum í blálok leiksins. Helena Sverrisdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 25 stig en hún fór meðal annars 19 sinnum á vítalínuna í leiknum. Ísland var með tveggja stiga forskot í hálfleik, 33-31, og náði mest 9 stig forskoti í tvígang í fyrri hálfleik. Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og voru komnar í 16-7 eftir 9 mínútna leik. Ísland var síðan 16-10 yfir eftir fyrsta leikhluta og komst níu stigum yfir (31-22) þegar tæpar 3 mínútur voru til hálfleiks. Hollenska liðið átti góðan endasprett og kom muninum niður í 2 stig (33-31), fyrir leikhlé. Ísland skoraði fimm fyrstu stig seinni hálfleiks og hélt frumkvæðinu út leikhlutann en staðan var 53-49 fyrir okkar stelpur eftir 3. leikhluta. Íslensku stelpurnar héldu forustunni síðan allt þar til að hollenska liðið skoraði 9 stig í röð og breyttu stöðunni úr 59-56 fyrir Íslands í 59-65 fyrir Holland. Það munaði miklu um 30 sóknarfráköst hollenska liðsins og 27 tapaða bolta þess íslenska og með því að bæta sig á þessum sviðum eru stelpurnar til alls líklegar í heimaleikjunum tveimur gegn Írlandi og Noregi. Holland komst í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar aðeins 3 mínútur og 13 sekúndur voru eftir. Það munaði miklu þegar reyndasti leikmaður íslenska liðsins, Birna Valgarðsdóttir, fékk sína fimmtu villu þegar tæpar 4 mínútur voru eftir, en Ísland var þá þremur stigum yfir. Birna átti mjög góðan leik ásamt Helenu Sverrisdóttur en saman skoruðu þær 41 af 61 stigi Íslands í leiknum. Helena skoraði 25 stig þar af 18 þeirra í fyrri hálfleik en hún fékk alls 13 villur á hollenska liðið í leiknum. Fyrirliðinn, Signý Hermannsdóttir var líka mjög traust sérstaklega í vörninni þar sem hún var með 5 varin skot, 5 stolna bolta og 10 varnarfráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir átti líka mjög góða innkomu af bekknum (8 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar) í sínum fyrsta alvöru landsleik. Atkvæðamestar hjá íslenska liðinu: Helena Sverrisdóttir 25 stig, 8 fráköst, 13 fiskaðar villur Birna Valgarðsdóttir 16 stig, hitti úr 6 af 11 skotum, 6 fiskaðar villur Signý Hermannsdóttir 8 stig, 11 fráköst, 5 stolnir, 5 varin Kristrún Sigurjónsdóttir 8 stig, 4 fráköst, hitti úr 2 af 2 þriggja stiga skotum sínum Hildur Sigurðardóttir 2 stig María Ben Erlingsdóttir 2 stig Þrír leikmenn íslenska landsliðsins spiluðu sinn fyrsta landsleik í kvöld, Pálína Gunnlaugsdóttir var með 5 fráköst og 4 stoðsendingar á sínum 18 mínútum, Margrét Kara Sturlusdóttir tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á 7 mínútum en Jovana Lilja Stefánsdóttir kom ekki við sögu. Íslenska landsliðið sem spilaði gegn Hollandi í kvöld.Efri röð frá vinstri: Björg Hafsteinsdóttir, sjúkraþjálfari, Birna Valgarðsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Helena Sverrisdóttir, Signý Hermannsdóttir, Helga Jónasdóttir, María Ben Erlingsdóttir og Guðjón Skúlason, þjálfari. Neðri röð frá vinstri: Margrét Kara Sturludóttir, Hildur Sigurðardóttir, Jovana Lilja Stefánsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Þórunn Bjarnadóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir.