6 sep. 2006Hanno Möttölä fór mikinn í eina leiknum sínum á Íslandi til þessa en hann verður einmitt í aðalhlutverki í finnska landsliðinu sem sækir Ísland heim í Laugardalshöllina í kvöld. Möttölä sem á að baki leiki í NBA-deildinni og er núverandi leikmaður B.C. Zalgiris Kaunas í Litháen. Hann skoraði 42 stig í evrópuleik þjóðanna á Ásvöllum 22. ágúst 2001 og íslensku strákarnir verða því að gæta hans vel í kvöld ef þær ætla sér að vinna þennan mikilvæga leik. Hanno Möttölä, sem er 208 sentimetrar á hæð, skoraði þessi 42 stig á 38 mínútum sem hann lék í leiknum á Ásvöllum en Finnar unnu leikinn 73-84 og skoraði því kappinn helming stiga síns liðs. Möttöla var einnig með 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 blokk í leiknum. Hann nýtti 14 af 22 skotum sínum (64%), þar af 3 af 5 þriggja stiga skotum sínum og setti niður 11 af 12 vítum (92%). Í seinni leiknum í Finnlandi skoraði þessi snjalli leikmaður síðan 23 stig á 29 mínútum þar sem að hann setti niður 8 af 11 skotum sínum og öll sex vítin. Hanno Möttölä er nýgenginn til B.C. Zalgiris Kaunas í Litháen en hann lék með rússneska liðinu Dynamo Moskva í fyrra. Hann á að baki 115 leiki með Atlanta Hawks í NBA-deildinni frá 2000 til 2002 og skoraði í þeim 4,6 stig að meðaltali á 15,2 mínútum.