29 jún. 2006Helena Sverrisdóttir, fyrirliði 18 ára landsliðs kvenna, náði þeim merka áfanga á nýafstöðnu Norðurlandamóti unglinga í Svíþjóð að skora sitt þúsundasta stig fyrir yngri landslið Íslands. Helena hefur nú skorað 1089 stig í 47 landsleikjum með 16 ára og 18 ára liðunum en það gera 23,2 stig að meðaltali í leik. Engin íslenska kona hefur spilað fleiri leiki eða skorað fleiri stig fyrir yngri landsliðin. Þúsundasta stigið hennar Helenu kom strax í fyrsta leiknum gegn Svíþjóð en það skoraði Helena af vítalínunni í upphafi fjórða leikhluta. Helena hefur einnig skorað 194 stig í 15 A-landsleikjum og er því búin að skora 1283 stig í 62 landsleikjum fyrir Ísland síðan að hún lék sinn fyrsta landsleik á Promotion Cup á Möltu 2. júlí 2002. Leikurinn var á móti Lúxemborg og tapaðist [v+]http://www.fibaeurope.com/cid_f43ulKJBGLcVnbH-aqLVu2.gameID_3438-A-1-1.compID_0HfDec0vJ1-VlVziYxDM72.season_2002.roundID_3105.teamID_300.html[v-]62-66[slod-] en Helena skoraði í honum 14 stig. Helena hefur níu sinnum skorað meira en 30 stig í einum leik, þrisvar hefur hún brotið 40 stiga múrinn og mest hefur hún skorað 46 stig í leik. Það gerði hún með 16 ára liðinu gegn Finnum á Norðurlandamótinu árið 2004. Helena skoraði síðan 45 stig tveimur dögum síðar þegar íslensku stelpurnar unnu Svía og tryggðu sér Norðurlandameistaratitilinn. 18 ára landsliðið hefur nú hafið lokaundirbúning sinn fyrir Evrópukeppnina sem fer fram í Chieti á Ítalíu í næsta mánuði og þar má búast við því að Helena bæti nokkrum stigum við þau 1089 sem hún hefur þegar skorað fyrir yngri landslið Íslands. Íslenska liðið er í riðli með Úkraínu, Lettlandi og Makedóníu en efstu tvö liðin komast í milliriðilinn. Stig Helenu fyrir yngri landslið Íslands: 16 ára lið kvenna Samtals: 25 leikir, 628 stig (25,1 að meðaltali) Á Norðurlandamóti: 10 leikir/266 stig (26,6) Í Evrópukeppni: 8 leikir/201 stig (25,1) Í Promotion: 5 leikir/96 stig (19,2) Í æfingalandsleikjum: 2 leikir/65 stig (32,5) 18 ára lið kvenna Samtals: 22 leikir, 461 stig (21,0) Á Norðurlandamóti: 10 leikir/220 stig (22,0) Í Evrópukeppni: 8 leikir/166 stig (20,8) Í Promotion: 4 leikir/75 stig (18,8) Yngri landslið kvenna Samtals: 62 leikir, 1089 stig (23,2) Á Norðurlandamóti: 20 leikir/486 stig (24,3) Í Evrópukeppni: 16 leikir/367 stig (22,9) Í Promotion: 9 leikir/171 stig (19,0) Í æfingalandsleikjum: 2 leikir/65 stig (32,5)