27 apr. 2006Komið er að þeim tímamótum að undirritaður ritar hér sinn síðasta pistil sem formaður KKÍ. Þótt kjörtímabili mínu sem formanns ljúki ekki fyrr en á ársþingi KKÍ, sem hefst í Grafarvogi 6. maí, hef ég tilkynnt stjórn sambandsins um afsögn mína sem formanns frá og með deginum í dag - fimmtudeginum 27. apríl 2006. Er það gert til að uppfylla kjörgengi til forseta ÍSÍ, en undirritaður er þar í kjöri á Íþróttaþingi um næstu helgi. Gjarnan er slíkt tilefni til að líta um öxl - gera upp “vertíðina” - og þakka fyrir sig. Pistlaskrif þessi hófust á árinu 2000 eða fyrir ríflega sex árum síðan. Markmið pistlanna er og var fyrst og fremst að auka upplýsingastreymi frá stjórn KKÍ, sem og að koma sjónarmiðum á framfæri um málefni sem til meðferðar hafa verið innan sambandsins - og raunar oft á tíðum innan íþróttahreyfingarinnar yfirleitt. Ef um var að ræða erfið dægurmál hefur yfirleitt verið beðið með að koma sjónarmiðum á framfæri uns öldur hefur lægt, og málefnaleg umfjöllun til framtíðarlausna líklegri til að ná árangri. Yfir keppnistímabilið hafa þeir verið nokkuð reglulega einu sinni í viku, og telst mér til að pistlarnir séu nú orðnir meira en 120 talsins, og raunar má bæta 20-25 við þá sem birtust á öðrum vettvangi þar á undan, svo og t.d. á heimasíðu KKDÍ. Er ég viss um að Óskar Ófeigur myndi hafa þessa tölfræði betur á hreinu - enda frábærar tölfræðisamantektir hans eflaust miklu fleiri en pistlar undirritaðs. Óneitanlega hef ég orðið var við að pistlarnir hafa verið víða lesnir - öðruvísi hefði maður vart haft nennu til að stunda þessi skrif. Viðbrögð hafa orðið talsverð, stundum smávægilegar leiðréttingar á staðreyndum, stundum góðfúslegar ábendingar, og svo ósjaldan ánægjuleg eða spaugileg viðbrögð. Kann ég öllum þeim aðilum bestu þakkir fyrir áhugann. Meðal spurninga sem hafa borist er felur í sér hvort menn verði ekki uppiskroppa með hugmyndir að umfjöllunarefnum. Því er til að svara að það er afar ólíklegt, svo lengi sem hreyfing okkar verður jafn fjölbreytt og uppátækjasöm og raun ber vitni. Án efa hefði ég treyst mér til þess að rita pistla jafn lengi til viðbótar án mikillar endurtekningar. Íslensk körfuknattleiks- og íþróttahreyfing er það fjölbreytt. Eins og fyrr segir þá er við þessi tímamót tilefni til að þakka fyrir sig - eftir 16 ára setu samfleytt innan stjórnar KKÍ. Ég vil þakka þeim sem hafa sýnt pistlum þessum þá virðingu að lesa þá. Pistlaskrifin - og samskipti og viðbrögð vegna þeirra - er hluti af þessum ánægjulegu störfum innan hreyfingarinnar sem halda mönnum við efnið. Hvort eftirmaður minn - sem nú liggur fyrir með formlegum hætti að verður varaformaðurinn minn til margra ára, Hannes S. Jónsson - muni taka upp sömu siði er auðvitað ekki mitt að hafa skoðun á. Þótt ég muni formlega kveðja hreyfinguna sem formaður á komandi ársþingi þá finnst mér rétt almennt að senda kveðju til lesenda heimasíðu KKÍ - sem ég hef unnið svo mikið að því að móta með starfsmönnum sambandsins á undanförnum árum - og óska ykkur öllum velfarnaðar í störfum ykkar, hvort sem það er við að útbreiða fagnaðaerindi körfuknattleiksins eða annarra starfa. Megi íslenskur körfuknattleikur vaxa og dafna í framtíðinni. Ólafur Rafnsson, “fyrrverandi” formaður KKÍ.
Takk fyrir mig!
27 apr. 2006Komið er að þeim tímamótum að undirritaður ritar hér sinn síðasta pistil sem formaður KKÍ. Þótt kjörtímabili mínu sem formanns ljúki ekki fyrr en á ársþingi KKÍ, sem hefst í Grafarvogi 6. maí, hef ég tilkynnt stjórn sambandsins um afsögn mína sem formanns frá og með deginum í dag - fimmtudeginum 27. apríl 2006. Er það gert til að uppfylla kjörgengi til forseta ÍSÍ, en undirritaður er þar í kjöri á Íþróttaþingi um næstu helgi. Gjarnan er slíkt tilefni til að líta um öxl - gera upp “vertíðina” - og þakka fyrir sig. Pistlaskrif þessi hófust á árinu 2000 eða fyrir ríflega sex árum síðan. Markmið pistlanna er og var fyrst og fremst að auka upplýsingastreymi frá stjórn KKÍ, sem og að koma sjónarmiðum á framfæri um málefni sem til meðferðar hafa verið innan sambandsins - og raunar oft á tíðum innan íþróttahreyfingarinnar yfirleitt. Ef um var að ræða erfið dægurmál hefur yfirleitt verið beðið með að koma sjónarmiðum á framfæri uns öldur hefur lægt, og málefnaleg umfjöllun til framtíðarlausna líklegri til að ná árangri. Yfir keppnistímabilið hafa þeir verið nokkuð reglulega einu sinni í viku, og telst mér til að pistlarnir séu nú orðnir meira en 120 talsins, og raunar má bæta 20-25 við þá sem birtust á öðrum vettvangi þar á undan, svo og t.d. á heimasíðu KKDÍ. Er ég viss um að Óskar Ófeigur myndi hafa þessa tölfræði betur á hreinu - enda frábærar tölfræðisamantektir hans eflaust miklu fleiri en pistlar undirritaðs. Óneitanlega hef ég orðið var við að pistlarnir hafa verið víða lesnir - öðruvísi hefði maður vart haft nennu til að stunda þessi skrif. Viðbrögð hafa orðið talsverð, stundum smávægilegar leiðréttingar á staðreyndum, stundum góðfúslegar ábendingar, og svo ósjaldan ánægjuleg eða spaugileg viðbrögð. Kann ég öllum þeim aðilum bestu þakkir fyrir áhugann. Meðal spurninga sem hafa borist er felur í sér hvort menn verði ekki uppiskroppa með hugmyndir að umfjöllunarefnum. Því er til að svara að það er afar ólíklegt, svo lengi sem hreyfing okkar verður jafn fjölbreytt og uppátækjasöm og raun ber vitni. Án efa hefði ég treyst mér til þess að rita pistla jafn lengi til viðbótar án mikillar endurtekningar. Íslensk körfuknattleiks- og íþróttahreyfing er það fjölbreytt. Eins og fyrr segir þá er við þessi tímamót tilefni til að þakka fyrir sig - eftir 16 ára setu samfleytt innan stjórnar KKÍ. Ég vil þakka þeim sem hafa sýnt pistlum þessum þá virðingu að lesa þá. Pistlaskrifin - og samskipti og viðbrögð vegna þeirra - er hluti af þessum ánægjulegu störfum innan hreyfingarinnar sem halda mönnum við efnið. Hvort eftirmaður minn - sem nú liggur fyrir með formlegum hætti að verður varaformaðurinn minn til margra ára, Hannes S. Jónsson - muni taka upp sömu siði er auðvitað ekki mitt að hafa skoðun á. Þótt ég muni formlega kveðja hreyfinguna sem formaður á komandi ársþingi þá finnst mér rétt almennt að senda kveðju til lesenda heimasíðu KKÍ - sem ég hef unnið svo mikið að því að móta með starfsmönnum sambandsins á undanförnum árum - og óska ykkur öllum velfarnaðar í störfum ykkar, hvort sem það er við að útbreiða fagnaðaerindi körfuknattleiksins eða annarra starfa. Megi íslenskur körfuknattleikur vaxa og dafna í framtíðinni. Ólafur Rafnsson, “fyrrverandi” formaður KKÍ.