19 apr. 2006Lokahóf KKÍ verður haldið á föstudaginn kemur á Radison SAS hótelinu í Reykjavík, sem áður hét Hótel Saga. Heiðursgestur KKÍ á hófinu verður litháíska goðsögnin Sarunas Marciulionis sem ma. lék í 7 ár í NBA-deildinni. Hófið verður með hefðbundnu sniði, veitt verða einstaklingsverðlaun til þeirra leikmanna sem skarað hafa fram úr í vetur, bæði í tölfræðiþáttum og eins hafa leikmenn kosið lið ársins, leikmenn og þjálfara ársins o.s.f.v. Verð aðgöngumiða á lokahóf KKÍ er kr. 4.800,- Matseðill: - Rjómabætt villisveppasúpa - Heilsteiktar nautalundir bernaise. Húsið opnar kl. 19:30. Sarunas Marciulionis er sem fyrr segir einn albesti leikmaður sem leikið hefur í NBA-deildinni frá Evrópu. Hann lék í sjö ár með Golden State, Seattle, Sacramento og Denver. Hann lék alls 363 leiki í NBA og skoraði í þeim 12,8 stig að meðaltali. Hann lék einnig 17 leiki í úrslitakeppni NBA og í þeim skoraði hann 13,7 stig að meðaltali. Að auki lék Marciulionis fjölda leikja með sovéska og litháíska landsliðinu. Hann vann til gullverðlauna með sovéska liðinu á Ólympíuleikunum 1988 og til bronsverðlauna með því litháíska á leilkunum á leikunum 1992 og 1996. Þá vann hann til silfurverðlauna með liðinu á EM 1995, þar sem hann var valinn besti leikmaður keppninnar. Eftir að hann hætti að leika sjálfur hefur Marciulionis unnið ötullega að framgangi körfuknattleiks í heimalandi sínu og víðar. Hann kom á laggirnir deild sem félagslið frá Eystrasaltsríkjum og Skandinavíu hafa tekið þátt í. Síðast en ekki síst stofnaði hann körfuboltaakademíu í Vilnius sem ber nafn hans. Sarunas Marciulionis sýnir KKÍ mikinn heiður með því að vera viðstaddur lokahófið þar sem hann mun halda hátíðarræðu kvöldsins. Marciulionis hefur boðið sig fram til forseta FIBA Europe, en þing sambandsins verður haldið í München um miðjan maí nk.