17 apr. 2006Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar 2006. Þeir unnu Skallagrím í fjórða úrslitaleik liðanna 60-81 í Borgarnesi í kvöld. Þetta er 13. Íslandsmeistaratitilinn UMFN í meistaraflokki karla. Njarðvíkingar urðu síðast meistarar árið 2002, en þrjú síðustu ár hafa Keflavíkingar hampað Íslandsbikarnum. Sem fyrr segir er þetta í 13. sinn sem Njarðvíkingar hampa sigri í í karlaflokki og þeir nálgast ÍR-inga óðfluga, en ekkert félag hefur unnið bikarinn oftar en þeir, eða 15 sinnum. Áhorfendur sem troðfulltu íþróttahúsið í Borgarnesi skemmtu sér vel í kvöld og urði vitni að stórkostlegum varnarleik gestanna úr Njarðvík. Heimamenn fundu engar glufur á vörn gestanna og urðu að játa sig sigraða. Skallagrímsmenn geta hins vegar fegnað silfurverðlaunum á Íslandsmótinu í fyrsta sinn í sögu félagsins. Frábærri úrslitakeppni er lokið, sennilega einnig þeirri skemmtilegustu hingað til. Ólafur Rafnsson formaður KKÍ sagði í viðtali á Sýn í kvöld að við hefðum verið einum leik frá hinni fullkomnu úrslitakeppni og víst er að margir geta tekið undir þau orð. Njarðvíkingar og Skallagrímsmenn eiga heiður skilið fyrir frábæra umgjörð úrslitaleikjanna og áhorfendur einnig fyrir að fjölmenna á völlinn. Mikilvægasti leikmaðurinn úrslitakeppninnar var valinn Brenton Birmingham leikmaður UMFN, en hann átti frábæra leiki hvað eftir annað í þessari úrslitakeppni.