23 jan. 2006Sigmundur Már Herbertsson FIBA dómari er fastur á Kastrup flugvelli og kemst hvorki lönd né strönd. Ástæðan er verkfall flugmanna hjá SAS, en mest allt flug félagsins liggur niðri af þessum sökum. Sigmundur Már flaug til Kaupmannahafnar í gær, en hann á að dæma leik í Evrópukeppni í St. Pétursborg í Rússlandi á morgun. Meðdómari hans, Jan Holmen, frá Svíþjóð er einnig á Kastrup. Ekki er ljóst hvenær þeir félagar komast til St. Pétursborgar, en samkvæmt reglum FIBA Europe þurfa þeir komast í dag, degi fyrir leik. Svo gæti því farið að aðrir dómarar yrði fengir í verkefnið og því væri um algjöra fýluferð að ræða hjá þeim félögum. Málin ættu að skýrast síðar í dag. Nú er orðið ljóst að þeir Sigmundur Már og Jan Holmen komast ekki til St. Pétursborgar fyrr en um hádegi á morgun, þriðjudag, þ.e.a.s. ef flugmenn SAS mæta til vinnu. Ekki er ljóst hvað FIBA Europe gerir í málinu og ekki útilokað að aðrir dómarar verði settir á leikinn.