17 jan. 2006Einn er sá hópur – eða starfstétt – innan körfuknattleikshreyfingarinnar, og raunar fleiri íþróttagreina, sem jafnan er fremur hljótt um. Er þar þó um að ræða aðila sem geta verið miklir áhrifavaldar liða og leikmanna. Er þar um að ræða s.k. umboðsmenn eða “agents”. Hér heima á Íslandi hefur þetta verið tiltölulega einfalt í sniðum a.m.k. að því er varðar körfuknattleiksíþróttina. Orðspor hefur skapast um tiltekna áhugasama einstaklinga, sem gjarnan á grundvelli persónulegra sambanda sem þeir hafa aflað sér erlendis, hafa tekið að sér að vera milligönguaðilar um kaup eða ráðningu erlendra leikmanna til landsins. Sjaldnast er þar þó um stóra atvinnugrein að ræða, heldur í flestum tilvikum fremur hliðarbúgrein. Erlendis hefur þessi starfstétt þó víðari skírskotun, og getur starfið falið í sér mun meira en að koma samningi á milli leikmanns og liðs. Í starfinu getur falist umfangsmikil ráðgjöf og jafnvel réttindagæsla allan samningstímann. Þar eru leikmenn í sumum tilvikum raunverulegir skjólstæðingar ”umboðsmannanna” í þeim skilningi sem almennt er lagður í þau hugtök. Slíkir aðilar kunna að bera vel úr býtum þegar skjólstæðingar þeirra eru eftirsóttir og hálaunaðir atvinnumenn, eins og á við í fjölda tilfella bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Undirritaður hefur orðið var við talsverða umræðu um umboðsmenn í störfum sínum innan stjórnar Evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, og þá einkum vegna siðferðilega svartra sauða í þeirri stétt. Má segja að slíkir aðilar hafi varpað talsverðum skugga á ótiltekinn hóp manna með sínum störfum. Er þar einkum átt við þau tilvik þar sem menn bera ekki hag umræddra leikmanna fyrir brjósti heldur láta einkum stjórnast af taumlausri græðgi í því formi að leita uppi unga og óharðnaða leikmenn – sem e.t.v. í sumum tilvikum hafa ekki traust bakland – og bjóða þeim gull og græna skóga í atvinnumennsku. Þetta getur verið afar ámælisvert þegar um er að ræða tilboð til ólögráða barna, og eru dæmi um slíkt niður í allra yngstu aldursflokka. Ekki er þetta síst ámælisvert þegar gullið og grænu skógarnir hafa jafnvel reynst vera á veikum grunni reist. Hefur kveðið svo rammt að ágangi sumra umboðsmanna að reynt hefur verið að skapa reglur sem takmarka aðgang þeirra að viðburðum yngri liða, og sérstaklega beinum aðgangi að leikmönnum. Augljóslega er erfitt að fylgja slíku eftir í framkvæmd. Hér á landi er ekki mikil umræða um störf umboðsmanna. Það er helst þegar um er að ræða vanefndir tiltekinna leikmanna – sem í sjálfu sér eru skjólstæðingar eða a.m.k. andlag viðskipta umboðsmannanna – rangar eða ýktar upplýsingar um leikmenn. Frægast er auðvitað það sem gárungarnir hafa nefnt “lækkun í hafi”, þ.e. þegar leikmenn reynast verulega lægri en uppgefið var við samningsgerð, eða eru jafnvel fjarri keppnisformi. Ég held að almennt megi fullyrða að umboðsmenn sem starfað hafa hér á landi hafi í flestum tilvikum reynst heiðarlegir og samviskusamir, og hafa ber í huga að varla getur starfið gefið mikið í aðra hönd ef mikil vinna er samfara því. Undirritaður reyndi fyrir fáeinum árum að eiga frumkvæði að umræðu meðal aðildarfélaga KKÍ um samræmdar reglur innan körfuknattleikshreyfingarinnar hérlendis varðandi umboðsmenn, og vakti máls á þeim möguleika að til að fá að starfa hér á landi þurfi menn að uppfylla tiltekin skilyrði af hálfu KKÍ. Í því samhengi hef ég ávallt talið að fyrir þurfi að liggja einhverjar ábyrgðir eða tryggingar vegna vanefnda. Hér getum við t.d. lært margt af þróun mála innan knattspyrnunnar. Því miður urðu ekki mikil viðbrögð við þessum tilraunum – eða kannski er mögulegt að hreinlega séu mál í það góðu horfi að ekki sé ástæða til slíkra hugleiðinga yfirleitt, og þá er það ekkert annað en ánægjulegt. Ég hef hinsvegar frekar trú á því að hér sé um að ræða – enn og aftur – endurspeglun á raunverulegum veikleikum okkar hreyfingar þar sem störfum hlaðnir sjálfboðaliðar geta hreinlega ekki fundið tíma til að sinna slíkum vangaveltum – fyrr en upp kemur alvarlegt deilumál á þessu sviði innan þeirra eigin herbúða. En það er býsna seint að byrja að grafa brunninn þegar maður er orðinn þyrstur… Ágætt að velta þessu fyrir sér í framtíðinni. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.
Formannspistill - Umboðsmenn
17 jan. 2006Einn er sá hópur – eða starfstétt – innan körfuknattleikshreyfingarinnar, og raunar fleiri íþróttagreina, sem jafnan er fremur hljótt um. Er þar þó um að ræða aðila sem geta verið miklir áhrifavaldar liða og leikmanna. Er þar um að ræða s.k. umboðsmenn eða “agents”. Hér heima á Íslandi hefur þetta verið tiltölulega einfalt í sniðum a.m.k. að því er varðar körfuknattleiksíþróttina. Orðspor hefur skapast um tiltekna áhugasama einstaklinga, sem gjarnan á grundvelli persónulegra sambanda sem þeir hafa aflað sér erlendis, hafa tekið að sér að vera milligönguaðilar um kaup eða ráðningu erlendra leikmanna til landsins. Sjaldnast er þar þó um stóra atvinnugrein að ræða, heldur í flestum tilvikum fremur hliðarbúgrein. Erlendis hefur þessi starfstétt þó víðari skírskotun, og getur starfið falið í sér mun meira en að koma samningi á milli leikmanns og liðs. Í starfinu getur falist umfangsmikil ráðgjöf og jafnvel réttindagæsla allan samningstímann. Þar eru leikmenn í sumum tilvikum raunverulegir skjólstæðingar ”umboðsmannanna” í þeim skilningi sem almennt er lagður í þau hugtök. Slíkir aðilar kunna að bera vel úr býtum þegar skjólstæðingar þeirra eru eftirsóttir og hálaunaðir atvinnumenn, eins og á við í fjölda tilfella bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Undirritaður hefur orðið var við talsverða umræðu um umboðsmenn í störfum sínum innan stjórnar Evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, og þá einkum vegna siðferðilega svartra sauða í þeirri stétt. Má segja að slíkir aðilar hafi varpað talsverðum skugga á ótiltekinn hóp manna með sínum störfum. Er þar einkum átt við þau tilvik þar sem menn bera ekki hag umræddra leikmanna fyrir brjósti heldur láta einkum stjórnast af taumlausri græðgi í því formi að leita uppi unga og óharðnaða leikmenn – sem e.t.v. í sumum tilvikum hafa ekki traust bakland – og bjóða þeim gull og græna skóga í atvinnumennsku. Þetta getur verið afar ámælisvert þegar um er að ræða tilboð til ólögráða barna, og eru dæmi um slíkt niður í allra yngstu aldursflokka. Ekki er þetta síst ámælisvert þegar gullið og grænu skógarnir hafa jafnvel reynst vera á veikum grunni reist. Hefur kveðið svo rammt að ágangi sumra umboðsmanna að reynt hefur verið að skapa reglur sem takmarka aðgang þeirra að viðburðum yngri liða, og sérstaklega beinum aðgangi að leikmönnum. Augljóslega er erfitt að fylgja slíku eftir í framkvæmd. Hér á landi er ekki mikil umræða um störf umboðsmanna. Það er helst þegar um er að ræða vanefndir tiltekinna leikmanna – sem í sjálfu sér eru skjólstæðingar eða a.m.k. andlag viðskipta umboðsmannanna – rangar eða ýktar upplýsingar um leikmenn. Frægast er auðvitað það sem gárungarnir hafa nefnt “lækkun í hafi”, þ.e. þegar leikmenn reynast verulega lægri en uppgefið var við samningsgerð, eða eru jafnvel fjarri keppnisformi. Ég held að almennt megi fullyrða að umboðsmenn sem starfað hafa hér á landi hafi í flestum tilvikum reynst heiðarlegir og samviskusamir, og hafa ber í huga að varla getur starfið gefið mikið í aðra hönd ef mikil vinna er samfara því. Undirritaður reyndi fyrir fáeinum árum að eiga frumkvæði að umræðu meðal aðildarfélaga KKÍ um samræmdar reglur innan körfuknattleikshreyfingarinnar hérlendis varðandi umboðsmenn, og vakti máls á þeim möguleika að til að fá að starfa hér á landi þurfi menn að uppfylla tiltekin skilyrði af hálfu KKÍ. Í því samhengi hef ég ávallt talið að fyrir þurfi að liggja einhverjar ábyrgðir eða tryggingar vegna vanefnda. Hér getum við t.d. lært margt af þróun mála innan knattspyrnunnar. Því miður urðu ekki mikil viðbrögð við þessum tilraunum – eða kannski er mögulegt að hreinlega séu mál í það góðu horfi að ekki sé ástæða til slíkra hugleiðinga yfirleitt, og þá er það ekkert annað en ánægjulegt. Ég hef hinsvegar frekar trú á því að hér sé um að ræða – enn og aftur – endurspeglun á raunverulegum veikleikum okkar hreyfingar þar sem störfum hlaðnir sjálfboðaliðar geta hreinlega ekki fundið tíma til að sinna slíkum vangaveltum – fyrr en upp kemur alvarlegt deilumál á þessu sviði innan þeirra eigin herbúða. En það er býsna seint að byrja að grafa brunninn þegar maður er orðinn þyrstur… Ágætt að velta þessu fyrir sér í framtíðinni. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.