16 nóv. 2005Helgi Magnússon landsliðsmaður var stigahæsti maður vallarins í leik North Carolina og Catawba í undirbúningsleik fyrir komandi keppnistímabil í bandaríkska háskólaboltanum. Þessir skólar eru hvor í sinni deildinni og því nokkur styrkleikamunur á þeim. UNC vann leikinn, 89-63, en leikurinn var á heimavelli þeirra í Chapel Hill. Helgi var með 20 stig á 28 mínútum og fína skotnýtingu. Finnur bróðir hans og unglingalandsliðsmaður, sem einnig leikur með Catawba, lék í eina mínútu, en komst ekki á blað. Það er ekki á hverjum degi sem íslenskur körfuknattleiksmaður upplifir það að leika gegn jafn frægu skólaliði og North Carolina eða Tar Heels eins og þeir eru kallaðir. David Noel var stigahæstur hjá UNC með 18 stig.