7 nóv. 2005Kristinn Óskarsson og Sigmundur Már Herbertsson FIBA-dómarar hafa báðir fengið tilnefningar frá FIBA-Europe og munu dæma leiki á erlendri grund í vikunni. Kristinn Óskarsson fer til Litháen og dæmir 2 leiki, þann 8. nóvember dæmir hann leik BC Siauliai og Cantu frá Ítalíu í Evrópubikar karla. Meðdómarar hans verða þeir Ladho Sharro frá Svíþjóð og Juris Kokainis frá Lettlandi. Daginn eftir dæma svo Kristinn og Ladho leik Arvi Marijampole og Gospic frá Króatíu í Evrópubikar kvenna. Þess má geta að Ladho dæmdi leik Hauka og CajaCanarias á Ásvöllum nú fyrr í mánuðinum og leik Keflavíkur og Lappeenranta frá Finnlandi þann 3. nóvember. Sigmundur Már Herbertsson mun á sama tíma og Kristinn er í Litháen vera við störf í Þýskalandi. 8. nóvember dæmir hann leik Rhein Energie og BC Zadar frá Króatíu með Jose Ramon Garcia Oritz frá Spáni og David Chambon frá Frakklandi. Leikurinn er í Evrópubikar karla. Tveimur dögum seinna dæma svo Sigmundur og David leik TSV1880 Wasserburg og ZKK Medvascak frá Króatíu en sá leikur er í Evrópubikar kvenna.