23 júl. 2005Stelpurnar í U16 töpuðu fyrir Svíum í dag 30:65. Leikurinn var þó mun jafnari en tölurnar gefa til kynna og var tapið í raun allt of stórt miðað við gang leiksins. En stórt er einmitt það orð sem lýsir sænska liðinu einna best. Svíar unnu frákastaslaginn 59:34 og tóku m.a. 26 sóknarfráköst í leiknum og skýrir það að mestu tapið. Íslenska liðið lék þó vel en var óvenju seinheppið með skotin sín. Atkvæðamestar í íslenska liðinu voru þær Unnur Tara með 8 stig og þær stöllur Hafrún og Alma Rut sem skoruðu 7 stig hvor. Kara var að venju grimm í fráköstunum og tók níu stykki á þrettán leikmínútum. Á morgun mætum við hávöxnu liði Niðurlendinga sem hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa á mótinu. Stelpurnar eru allar heilar og í hópnum ríkir mikil jákvæðni og samstaða.