10 júl. 2005Eftir langbesta hálfleik sem íslenska liðið hefur spilað á EM U20 hrundi allt til grunna í seinni hálfleik og Pólverjar völtuðu yfir höfuðlausan her Íslendinga og unnu 98-52. Leikurinn er víst í 40 mínútur, en ekki 20. Íslenska liðið gerði hið ómögulega í 20 mínútur og höfðu í fullu tré við firnasterkt lið Póllands, eitt af 2-3 bestu liðum B keppninnar hér í Búlgaríu. Ísland leiddi 21-18 eftir 10 mínútur og leikur liðsins var draumi líkastur. Samstaðan og baráttan, hittnin og liðsvinnan, í sókn og vörn, var farmúrskarandi. Pólverjar náðu forystunni og áttu síðasta skotið í fyrri hálfleik sem gaf þeim 8 stiga forskot, 38-30. Þvílík skemmtun! En Adam var ekki lengur í Paradís. Eins og spilamennskan var frábær í fyrri hálfleik var hún slök í þeim þriðja sem Pólverjar unnu 38-6! Einstaklingsframtak og ósamstaða var íslenska liðinu að falli og það var ekki fyrr en í lok leiksins sem örlaði aftur á vitrænum leikköflum. Steingrímur Ingólfsson, Elvar Guðmundsson, Friðrik Sigurðarson og Bjarni Bjarnason drifu liðið þá aftur í gang og skoruðu góðar körfur eftir fallegar leikfléttur og börðust blóðugri baráttu í vörninni, gegn þrítugum múrnum. Stig Íslands í leiknum skoruðu: Sveinbjörn Claessen 14, Viðar Hafsteinsson 13, Elvar Guðmundsson 8, Ragnar Gylfason 6, Steingrímur Ingólfsson 5, Bjarni Bjarnason 5 og Ágúst Angantýsson 1. Fráköstin fóru 25-50 fyrir Pólland, tapaðir boltar 27-25 fyrir Ísland. Nánari tölfræði á [v+]http://www.u20men2005.com/en/default.asp?cid={F18630AD-4D2C-4DA9-9026-CEF51349B8F4}[v-]heimasíðu FIBA[slod-]. Engir leikir eru á morgun mánudag og hafa Íslendingar því ráðrúm til að horfa í eigin barm og leita skýringa á seinnihálfleiknum í kvöld en liðið mætir Írum á þriðjudag og það verður enn ein þrekraunin.