Síðustu vikum má líkja við eina góða langa sérleið í rally, ég sé fyrir mér gömlu góðu Lyngdalsheiðina þegar ég skrifa þetta. Þrátt fyrir allt stopp í æfingum og keppni hefur allt verið á blússandi fullri ferð og nánast á yfirsnúning í sjötta gír. 

Enn einu sinni á þessu sérstaka ári 2020 höfum við í körfuboltanum og íþróttahreyfingunni þurft að takast á við krefjandi aðstæður. Mikið hefur verið fundað, spjallað, skrifað og hugsað. Margar skoðanir á lofti, ýmsar áhyggjur, en efst er mér í huga samskipti við skemmtilegt hugsjónafólk með mikla ástríðu fyrir körfubolta. Eftir að þessi faraldur náði tökum á heimsbyggðinni höfum við spilað fjóra landsleiki við afar sérstakar aðstæður.

Að spila í þeim „bubblum“ sem FIBA setti upp er vandasamt verk. Leikmenn, þjálfarar og fylgdarlið þurfti að fylgja ströngum reglum dagana fyrir brottför og ekki síður hörðum reglum í „bubblunni“ þar sem ekki mátti fara út af hótelinu nema til æfinga og keppni. Að ferðast á þessum tímum, þar sem flugsamgöngur eru erfiðar, bætir enn á flækjustigið. Við þessar aðstæður er ekki sjálfsagt að leikmenn og fylgdarlið gefi kost á sér í verkefni sem þetta. Leikmenn lögðu mikið á sig til að spila þessa landsleiki fyrir Íslands hönd, við þær aðstæður sem eru núna í heiminum. Svona fórnir eru ekki sjálfgefnar og þetta er fólkið okkar að leggja á sig fyrir Ísland og íslenskan körfubolta. Leikmönnum okkar og fylgdarliði þakka ég fyrir þeirra ómetanlega framlag og þann ómetanlega vilja til að láta verkefnið ganga upp.

Ég er afar stoltur af öllu mínu fólki í körfuboltafjölskyldunni sem hefur tekist á við erfiðarar aðstæður, aðstæður sem enginn hefur nokkru sinni tekist á við áður. Markmið okkar allra er að ná tökum á COVID-19 faraldrinum og aðildarfélög KKÍ hafa staðið sig frábærlega í starfi sínu við þessar aðstæður.

Nú þegar höfum við hjá KKÍ frestað um 1.100 leikjum í Íslandsmóti og bikarkeppni frá október og út desember. Við höfum miklar áhyggjur af brottfalli iðkenda, en þessar áhyggjur höfum við viðrað við yfirvöld og beðið þau um að vinna með okkur að lausnum. Sérstakar áhyggjur höfum við af þeim árgöngum sem eru á framhaldsskólaaldri og hafa lítið sem ekkert fengið að mæta á parketið til æfinga frá því snemma í haust. Þessi hópur þurfti að takast á við æfinga- og keppnisstopp síðasta vor, eins og aðrir íþróttamenn. Við höfum fundið það sterkt í okkar hreyfingu að það er vilji til að þessir árgangar fái að komast til æfinga aftur, þó það verði ströngum skilyrðum háð. Tökum höndum saman öll sem eitt við að passa vel upp á þessa einstaklinga, gæta þess að halda þeim innan íþróttahreyfingarinnar, taka vel utan um þá sem skila sér ekki til æfinga þegar æfingar hefjast og finna leiðir til að virkja þessa einstaklinga til góðra verka. Við þurfum af öllum mætti að aðstoða unga fólkið okkar og börnin að koma aftur á æfingu. 

KKÍ og körfuknattleiksfólk hefur farið í einu og öllu eftir tilmælum og reglum yfirvalda frá því COVID-19 faraldurinn hófst og mun gera það áfram. Forysta KKÍ hefur átt í góðum samskiptum við yfirvöld sem eru ávallt tilbúinn að mæta til fundar til að hlusta á skoðanir okkar og lýsa jafnframt sínum sjónarmiðum. KKÍ hefur ásamt HSÍ útbúið vandaðar og ítarlegar sóttvarnareglur, sem hafa verið uppfærðar eftir þörfum. KKÍ hefur talað fyrir málstað körfuboltafólks og íþróttamanna, enda er það eitt lykilhlutverk sambandsins. Við höfum bent á að þó staða faraldursins sé slæm, þá sé hægt að stunda íþróttir með því að hafa skýrar reglur og gæta að öllum sóttvörnum. KKÍ hefur einmitt lagt á það mikla áherslu að æfingar stoppi ekki, heldur leitað sé lausna þar sem fjarlægðarmörk, fjöldi í hóp og lengd æfinga séu frekar þær hömlur sem nýttar séu, fremur en algjört æfingastopp.

Tjáningar- og skoðanafrelsi okkar er dýrmætt. Það er réttur allra að tjá hug sinn, og eins og Jón Kalman Stefánsson komst að orði, þá er helvíti sá staður þar sem allir eru sammála. Það er því afar sérstakt þessa dagana að upplifa að einstaklingar sem tjá sig á málefnalegan hátt fái skömm í hattinn fyrir það eitt að hafa skoðanir. Munum að heilbrigð skoðanaskipti og gagnrýni þar sem við rýnum til gagns á alltaf rétt á sér og þannig höldum við áfram framþróun íþróttarinnar okkar sem og íþróttahreyfingarinnar allrar. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála en munum að vera kurteis og bera virðingu fyrir skoðunum annarra.

Tökum höndum saman öll sem eitt þessa dagana við að ná COVID-19 smitum sem mest niður í samfélaginu og fáum þannig að komast sem fyrst á parketið. Við erum á réttri leið, höldum því áfram og tryggjum bjartari tíma framundan í þjóðfélaginu okkar.

Körfuknattleiksfjölskyldunni sendi ég góðar kveðjur með kærri þökk fyrir ykkar vinnu og framlag í baráttunni við COVID-19 faraldurinn.

Áfram körfubolti – áfram ÍSLAND!! 

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ