Ár 2007, mánudaginn 16. apríl er dómþing dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) háð af Halldór Halldórssyni formanni dómsins. Fyrir er tekið: Mál nr. 5/2007 Körfuknattleiksdeild KR gegn Dómaranefnd KKÍ og Körfuknattleikssambandi Íslands Í málinu er kveðinn upp svofelldur DÓMUR I Mál þetta er móttekið af skrifstofu KKÍ 2. mars sl. og gögn málsins send formanni dómsins með símbréfi sama dag. Kærandi er körfuknattleiksdeild KR, Frostaskjóli 2, Reykjavík. Kærðu eru Dómaranefnd KKÍ og Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Reykjavík. Málið hefur áður verið tekið fyrir í dómstólnum og var því þá vísað frá. Kærandi krafðist endurupptöku málsins og er það nú tekið aftur til úrlausnar. Dómkröfur Kærandi krefst þess að úrslit í leik kæranda og Hamars/Selfoss sem fram fór hinn 24. febrúar sl. verði ógild og leikurinn leikinn að nýju. Kærðu hafa ekki skilað greinargerð í málinu en upplýsingar um atvik máls hafa borist frá Dómaranefnd KKÍ. Þá hefur Hamar/Selfoss ekki látið málið til sín taka. Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu. Nr. 1 kæra. Nr. 2 útprentun úr gagnagrunni KKÍ um starfandi dómara á vegum KKÍ. Nr. 3 leikskýrsla. II Atvik máls og málsástæður Kærandi lýsir helstu málavöxtum svo; ,,Leikur Hamars/Selfoss og KR í 2. deild kvenna þann 24. febrúar. Leikinn dæmdu Lárus Jónsson leikmaður karlaliðs Hamars, og Indiana S Marqes (IM). Skráður dómari fyrir Hamar/Selfoss. Var annar dómarinn (IM) í tilskyldum dómarabúningi en hinn ekki (LJ). Á heimasíðu KKÍ er listi yfir þá A, B og C dómara sem dæma á vegum KKÍ. Á þeim lista er ekki að finna nafn Lárusar Jónssonar. Af einhverjum ástæðum hefur Dómaranefnd KKÍ ekki fylgt þeim reglum sem henni eru settar um að setja hlutlausa dómara á kappleik á vegum KKÍ. Ekki var haft samband við neinn af forsvarsmönnum KR og allt þar til 10 mínútum fyrir leik hélt þjálfarinn að Lárus Jónsson, sem er leikmaður karlaliðs Hamars, væri mættur á ritaraborð leiksins. Teljum við óhæft að viðlíka vinnubrögð séu viðhöfð á meistaraflokksstigi. Ljóst er að leikurinn hefði ekki verið spilaður af hálfu KR ef fyrirfram vitneskja um dómara leiksins hefði legið fyrir.” Frá Dómaranefnd KKÍ hafa borist þær upplýsingar að á leikinn hafi verið settir dómarar sem skráðir eru hjá nefndinni. Annar þeirra var Indiana S. Marqes. Hinn dómarinn forfallaðist á leikdegi og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að finna annan dómara með réttindi og því hafi verið brugðið á það ráð að fá Lárus Jónsson til að dæma leikinn. III Niðurstaða Óumdeilt er að dómarar leiksins tengjast liði Hamars/Selfoss. Þá er ekki ástæða til að rengja þær upplýsingar að annar dómanna hafi ekki verið í réttum búningi. Dómarapar leiksins uppfyllti því ekki þær kröfur sem gerðar eru í 4. og 6. mgr. 45. gr. reglu 8 í leikreglum KKÍ eins og kærandi bendir réttilega á. Eins og áður er rakið var réttindadómurum raðað á leikinn af Dómaranefnd KKÍ og lá þannig fyrir allnokkru fyrir leikinn hvaða dómarar áttu að dæma hann. Ekki verður séð að kærandi hafi gert athugasemdir við að Indiana S. Marques væri fengin til að dæma. Hins vegar var rangt af nefndinni að fela henni dómgæslu í leiknum. Eins og hér stendur á verður hins vegar að horfa til allra atvika málsins. Þegar flautað var til leiksins var kæranda fullkunnugt um það hvaða dómarar voru þar mættir og tengsl þeirra við Hamar/Selfoss. Hafi kæranda þótt þetta óeðlilegt á þeim tíma átti hann þá þegar að gera athugasemdir og eftir atvikum neita að spila leikinn. Ætla verður að það hafi honum verið heimilt. Ekki verður séð að Dómaranefnd KKÍ hafi á nokkurn hátt haft möguleika á því að fá réttindadómara til að dæma leikinn en allt var gert til þess sem unnt var. Mikil umræða hefur verið í körfuknattleikshreyfingunni um kostnað við dómgæslu. Alkunna er að í mörg ár hafa heimamenn, með eða án dómararéttinda, dæmt leiki í neðri deildum karla og kvenna. Hafa félög látið þetta viðgangast til að koma í veg fyrir að greiða ferðakostnað hlutlausra réttindadómara. Eins og áður segir var kærandi í fullum rétti með að neita að spila leikinn en það gerði hann ekki heldur tók þá ákvörðun að leika og við það verður hann að lifa en hann getur ekki á síðari stigum krafist þess að leikurinn verði endurtekinn vegna formgalla sem honum var ljós áður en leikur hófst. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið ber að hafna kröfum kæranda. Halldór Halldórsson formaður dómstóls KKÍ kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans. DÓMSORÐ. Kröfu körfuknattleiksdeildar KR þess efnis að endurtekinn verði leikur Hamars/Selfoss og KR sem fram fór 24. febrúar í 2. deild kvenna er hafnað. Halldór Halldórsson. Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti og skrifstofu sambandsins falið að birta dóminn fyrir aðilum. Dóminn skal birta á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstóla KKÍ.